Niðurstöður sjómælingasviðs LHG birtar í skýrslu um rannsóknir í Surtsey

Mánudagur 25. Maí 2009

Nýlega kom út hjá Surtseyjarfélaginu skýrsla um rannsóknir í Surtsey. Skýrslan er sú tólfta í röðinni um niðurstöður rannsókna sem stundaðar hafa verið í og við Surtsey. Meðal efnis í Surtsey Research 12 er umfjöllun um niðurstöður mælinga sem Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar hefur stundað á hafsvæðinu umhverfis eyjuna á árunum 1964-2007.

Surtsey_mulitbeam2007

Fjölgeislamæling árið 2007

Árni Þ. Vésteinsson deildarstjóra kortadeildar sjómælingsviðs Landhelgisgæslunnar ritar í skýrsluna stutta grein og nefnist hún  „Surveying and charting the Surtsey area from 1964-2007.“  Í inngangi segir að niðurstöður mælinga á svæðinu sýni talsverðar umbreytingar á hafsvæðinu umhverfis Surtsey. Fyrstu mælingar voru framkvæmdar í júlí 1964 og frá þeim tíma hefur svæðið verið mælt  fimm sinnum. Síðasta mæling var gerð árið 2007 með fjölgeislamæli sem er um borð í sjómælingabátnum Baldri. Niðurstöður mælinganna hafa leitt í ljós að á tímabilinu hefur dýpi við Surtsey, á Jólni, aukist um tæpa 30 metra frá goslokum.

Surtsey_1964

Jarðfræðingarnir Sveinn Jakobsson, Kjartan Thors og Lovísa Ásbjörnsdóttir rituðu í skýrsluna athyglisverða grein sem Árni Þ. Vésteinsson lagði einnig hönd á plóg í við kortagerð og myndvinnslu. Í greininni sem ber titilinn: Some aspects of the seafloor morphology at Surtsey volcano: The new multibeam bathymetric survey of 2007, er m.a. fjallað um fjölgeislamælingar við Surtsey sem mælingadeild sjómælingasviðs gerði árið 2007. Botnmynd sem jarðfræðingarnir leggja út af og túlka er birt í stóru broti með greininni.

Surtsey_1967

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Surtseyjarfélagsins en þar segir að síðunni er ætlað að vera almenningi og áhugasömum brunnur fróðleiks um eyjuna og þróun hennar. Þar er að finna helstu upplýsingar um uppruna Surtseyjar og þróun hennar bæði hvað jarðfræði snertir og líffræði. Félagið hefur frá stofnun þess gefið út skýrslur með niðurstöðum vísindastarfa en eins og fyrr segir hafa nú verið gefnar út tólf skýrslur sem eru samsafn greina ýmissa höfunda.

Surtsey_1985

Á síðunni Wikipediu segir;
Surtsey er syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'W. Hún er jafnframt sú eina þeirra sem hefur myndast á sögulegum tíma, eða í mesta neðansjávareldgosi á sögulegum tíma. Menn urðu gossins varir klukkan 7:15 að morgni þess 14. nóvember 1963, þegar það braust upp úr yfirborði sjávar skammt frá fiskibátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum.

Surtsey_2000

Skipverjar mældu sjávarhita í hálfrar mílu (ca. 900m) fjarlægð og reyndist hitastigið vera nálægt 10°C. Gosið magnaðist hratt og varð hár gosmökkur. Daginn eftir árdegis, sást í gosmekkinum að eyja hafði myndast. Er því ljóst að gosið hefur hafist einhverjum dögum áður en þess varð vart. Þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti í suðvestanátt í Vík í Mýrdal, en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár.

Surtsey_2007

Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands. Surtsey hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 7. júlí 2008. Surtsey er friðlýst, og er því á náttúruminjaskrá, umferð þangað er aðeins leyfð í vísindaskyni. Surtseyjarfélagið hefur eyjuna í umboði umhverfisstofnunar.

250509/HBS