Norska varðskipið Harstad kemur til landsins í boði Landhelgisgæslunnar

- koma skipsins liður í góðu og árangursríku samstarfi Landhelgisgæslu Íslands og norsku strandgæslunnar

Þriðjudagur 2. júní 2009

Norska varðskipið Harstad kom til Reykjavíkur í morgun en skipið er hér á landi í boði Landhelgisgæslunnar. Skipið er nánast systurskip íslenska varðskipsins Þórs sem er í smíðum í Chile. Harstad liggur við Ægisgarð til morguns en hér fara fram áhafnarskipti. Á fimmtudag og föstudag verður varðskipið við æfingar með varðskipi og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Harstad kemur síðan inn til Reykjavíkur aftur um sjómannadagshelgina og verður til sýnis fyrir almenning á sjómannadaginn 7. júní frá kl. 13:30-17:00 þar sem það mun áfram liggja við Ægisgarð í Reykjavík. Harstad heldur úr höfn á mánudag.  Um glæsilegt skip er að ræða sem gaman er að skoða og er almenningur hvattur til að nýta sér þetta einstaka tækifæri.

KV_Harstad

Koma skipsins og æfingar þess með starfsmönnum og tækjum Landhelgisgæslunnar sýnir skýrt hve samstarf Landhelgisgæslunnar við sjóheri og strandgæslur á Norður-Atlantshafi og samstarfssamningar þar um hafa mikið gildi fyrir öryggi , björgun og eftirlit á því gríðarstóra hafsvæði sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á.  Æfð eru viðbrögð og skipulag á margvíslegum þáttum sem meðal annars breytt heimsmynd og nýjar ógnir hafa kallað fram.  Heimsókn Harstad er einmitt liður í samstarfssamningi sem er í gildi milli Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar  á sviði strandgæslu, öryggismála, leitar og björgunar sem undirritaður var í október 2008.  Samkomulagið er á sviði sameiginlegra aðgerða vegna hugsanlegra mengunarslysa, fiskveiðieftirlits, skipta á skipaumferðarupplýsingum, leitar og björgunar á hafinu og ýmissa annara málefna er tengjast verkefnum á sviði strandgæslu. Nutu Íslendingar vissulega góðs af samstarfinu við hönnun og smíði Þórs, hins nýja fjölnota varðskips Landhelgisgæslunnar.  Er samningurinn við Norðmenn sambærilegur þeim sem gerður var við Dani í apríl 2007. 

Harstad var afhent norsku strandgæslunni í janúar 2005, það er 3200 brúttótonn að þyngd, 83 metrar að lengd og 15 metra breitt. Mesti hraði eru 18,5 sml. Um borð er 40mm Bofors fallbyssa. Í áhöfn Harstad eru 18-21 maður.

Thor02_A_sjo

Varðskipið Þór við sjósetninguna í Chile

Hið nýja fjölnota varðskip, Þór, er  talsvert stærra  en Harstad, 4.250 brúttótonn, 93,6 metrar að lengd og 16 metra breitt. Dráttargeta skipsins er 120 tonn og ganghraði 19,5 sjómílur. Varðskipið Þór verður afhent á fyrri hluta næsta árs en það verður bylting í eftirlits- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Mun það gjörbreyta möguleikum í björgun og aðstoð við skip á hinu víðfeðma hafsvæði sem Ísland ber ábyrgð á jafnt innan sem utan efnahagslögsögunnar. Verður hið nýja varðskip mikilvægur hlekkur í samstarfi þjóða umhverfis N-Atlantshaf þar sem gert er ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð við öryggiseftirlit og björgunarþjónustu. Landhelgisgæsla Íslands spilar þar gríðarlega mikilvægt hlutverk.

KVHarstad_brann
Harstad við slökkvistörf

 

Um borð í Þór verður sérstakur búnaður til mengunarvarna, fjölgeislamælir og DPS kerfi (Dynamic Position /Joystick System) sem veitir aukna nákvæmni í stjórn skipsins við erfiðar aðstæður. Þannig er hægt að láta skipið sjálft halda kyrru fyrir í ákveðinni stöðu á sama stað með mikilli nákvæmni. Þetta eykur hæfni skipsins til að nálgast t.d. strandað skip og koma dráttarbúnaði milli skipanna. Þá gefur þessi búnaður aukna möguleika á að stjórna skipinu við þröngar aðstæður þar sem snúa má því á alla kanta þó það hafi annað skip á síðunni.

Harstad2
Harstad á siglingu

Skipið er einnig búið öflugum eftirlitsbúnaði svo sem innrauðum og nætur myndavélum en allur eftirlitsbúnaður sameinast í sérstakri stjórnstöð inni í miðri brúnni. Þá er gert ráð fyrir að skipið geti virkað sem færanleg stjórnstöð í neyðaraðgerðum og tengt björgunarlið við samræmingarstöð í Skógarhlíð þó svo að allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri t.d. vegna náttúruhamfara. Hægt er að taka stórtækan björgunarbúnað um borð sem og fjölda manns sem getur skipt sköpum við björgunaraðgerðir.

 

Myndir af Harstad - Norska strandgæslan.

Mynd af Þór – Landhelgisgæslan

020609/HBS