Sóley Sigurjóns GK-200 strandar við Sandgerði. Íslenskt og norskt varðskip verða til taks.

Fimmtudagur 4. júní 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í morgun kl. 05:28 tilkynning um að togarinn Sóley Sigurjóns GK-200 hafi strandað í innsiglingunni til Sandgerðis. Varðskipið Týr var kallað á staðinn og kom að strandstað kl. 06:25. Skipið sat fast og hallaði mikið eða 35° á stjórnborða. Björgunar
skip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein var einnig kallað á staðinn. Fimm manns frá skipinu voru ferjaðir í land og engin hætta á ferðum. Norska varðskipið Harstad er á leið á staðinn og verður til taks ef á þarf að halda.

Beðið er til flóðs kl. 16:30 með að draga skipið en aðstæður á strandstað eru þröngar. Varðskipið TÝR leggst fyrir utan innsiglinguna meðan beðið er. Hægviðri er á staðnum og lítil alda, sama veðurspá er fyrir daginn í dag.

Léttbátur frá varðskipinu TÝ fór að skipinu til að athuga hvort vart verði við olíuleka og eins var dýpi mælt á staðnum. Ekki varð vart við olíuleka.

Togarinn Sóley Sigurjóns GK-200 frá Garði er 737 brúttótonn að þyngd, 40 metrar að lengd og 10 m að breidd.

Vardskip

Íslenskt varðskip á siglingu

KVHarstad_slepebatberedskap

Harstad við björgunarstörf í Noregi

Myndirnar tóku Jón Páll Ásgeirsson og norska strandgæslan.

040609/HBS