Varðskipið Týr losar togarann Sóleyju Sigurjóns af strandstað ásamt norska varðskipinu Harstad

Fimmtudagur 4. júní 2009

Mikilvægi varðskipa sem björgunartækja og ekki síður mikilvægi þess fyrir Landhelgisgæsluna að hafa yfir öflugu björgunar- og dráttarskipi að ráða sýndi sig berlega í eftirmiðdaginn þegar varðskipið Týr dró togarann Sóley Sigurjóns af strandstað í innsiglingunni í Sandgerði með aðstoð norska varðskipsins Harstad. Norska varðskipið Harstad er statt er hér við land á grundvelli samstarfssamnings við Landhelgisgæsluna. Einnig voru dráttarbátar á staðnum til að halda við togarann ásamt björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hannesi Þ. Hafstein.

SoleyStrand1

Á strandstað

Varðskipið Týr hafði togað í Sóleyju Sigurjóns hátt í eina klst. þegar skipið losnaði loks og var þá búið að óska aðstoðar Harstad sem beið átekta á staðnum. Harstad var búinn að tengja dráttartaugar sínar yfir í Tý og var að byrja að taka í með Tý þegar togarinn losnaði. Litlu munaði að Tý tækist ekki að draga skipið á flot og sýnir þetta atvik greinilega að full þörf er á öflugu dráttar- og björgunarskipi hér við land.Varðskipið Harstad er einmitt systurskip varðskipsins Þórs, nýja varðskips Íslendinga sem verið er að smíða í Chile. Togkraftur Týs er 55 tonn en geta togkraftur Harstad er 110 tonn og togkraftur varðskipsins Þórs er 120 tonn eða rúmlega tvöfalt á við Tý.

SoleyStrand4

Hafnsögubátnum Auðunni hvolfir

Við það að Sóley Sigurjóns losnaði hvolfdi hafnsögubátnum Auðunni/2043 en þegar báturinn var að ýta á bakborðshlið Sóleyjar vildi ekki betur til en að landfestar hennar, sem voru tengdar í lóðsinn, drógu bátinn á hliðina. Tveir menn voru í lóðsinum, annar uppi á dekki en hinn í stýrishúsi. Sá í stýrishúsinu fór niður með lóðsinum en komst upp á yfirborðið um 1-2 mínútum eftir að báturinn sökk og tók um tvær mínútur að bjarga mönnunum. Landhelgisgæslan óskaði eftir að sjúkrabíll yrði sendur á staðinn til aðstoðar. Sóley Sigurjóns sigldi undir eigin vélarafli til hafnar.

SoleyStrand2

Týr togar - dráttartaugar komnar yfir í Harstad

Verið er að kanna skemmdir og eins hvort olía hafi lekið úr togaranum en við fyrstu athugun virðist svo ekki vera en um viðkvæmt svæði er að ræða. Í því sambandi má geta þess að í norska varðskipinu Harstad er fullkominn mengunarvarnabúnaður.

SoleyStrand3
Togarinn Sóley Sigurjóns losnar af strandstað


Í fyrramálið verður varðskipið Týr ásamt Harstad á Faxaflóa þar sem æfð verða viðbrögð við mengun á hafinu. Í æfingunni verður notaður mengunarvarnabúnaður Harstad sem er sambærilegur þeim sem verður í varðskipinu Þór.

040609/HBS