Fimm hafnarkort og viti í hvarfi

  • Reykjavik_mai_2009

Miðvikudagur 10. júní 2009

Í byrjun maí var greint frá því hér á vefnum að sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar hefði lokið við gerð tveggja nýrra sjókorta og væru þau komin út. Þetta voru ný hafnakort af Tálknafirði og Bíldudal. Sjómælingasvið gaf út til viðbótar þrjú sjókort í nýjum útgáfum í maí. Hafnarkortið af Reykjavík kom um miðjan mánuðinn og undir mánaðarmót komu út nýjar útgáfur af kortunum af Rifi og Sauðárkróki. Á síðarnefndu stöðunum hafa verið gerðir stórir brimvarnargarðar sem kölluðu á uppfærslu kortanna. Tveir garðar á Rifi og einn á Sauðárkróki.

Rif_mai2009

Kort af Rifi nr. 421 útg. maí 2009

Ný útgáfa af sjókortinu af Reykjavík var síðast prentuð í nóvember 2005. Síðan þá hefur eitt og annað verið framkvæmt í höfninni, bæði þeirri gömlu við miðbæinn og inni í Sundahöfn. Það var því orðið tímabært að gera nýja útgáfu af kortinu. Flestar framkvæmdir sem snúa að hafnarmannvirkjum snerta sjófarendur á einhvern hátt. Það liggur í hlutarins eðli. Það má orða það þannig að sumar framkvæmdir eru minnihátta t.d. eins og endurnýjun viðlegukants en aðrar framkvæmdir varða öryggi sjófarenda beinlínis.

Sjomannaskolinn_Hofdatunsturninn_minni

Smellið á kortið til að sjá stærri útgáfu.

Í nýju útgáfunni af sjókortinu af Reykjavík ber tvennt í því tilliti hæst. Annars vegar er það færsla leiðarlínu í Viðeyjarsundi um tvær gráður og dýpkun sem því tengist vegna lengingar Skarfagarðs. Hins vegar er það að bygging 19 hæða turns á horni Borgartúns og Höfðatúns leiðir það af sér vitinn í Sjómannaskólanum er að hluta í hvarfi í Engeyjarsundi. Sjófarendur á leið inn sundið sjá því ekki til vitans eða þess hluta vitaljóssins sem turninn skyggir á. Upplýsingum um þetta var komið á framfæri í Tilkynningum til sjófarenda haustið 2008 og nú er komin út ný útgáfa sjókorts nr. 362 Reykjavík sem sýnir hvar á Engeyjarsundi vitaljósið frá Sjómannaskólanum er í hvarfi.

Sjomannask_i_hvarfi

Á myndinni sést hvernig viti Sjómannaskólans er í hvarfi

Reykjavik_mai_2009

Kort af Reykjavíkurhöfn nr. 362 útg. í maí 2009

100609/HBS