Skúta strandar á Engeyjarrifi

Miðvikudagur 1. júlí 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 19:04 tilkynning frá Neyðarlínunni um að skútan Sigurvon hafi strandað með fimm manns um borð á Engeyjarrifi. Gúmmíbátur frá dýpkunarpramma við Engey kom fyrstur að skútunni og lét stjórnstöð vita að engin hætta væri á ferðum.

Björgunarskipið Ásgrímur S. Björnsson var kallað út ásamt harðbotna björgunarbátum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar; Fiskakletti frá Hafnarfirði, Gróu Pétursdóttur frá Seltjarnarnesi og Stefni frá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Gróa Pétursdóttir kom fyrst á strandstaðinn kl. 19:41 og Ásgrímur S. Björnsson skömmu síðar.

Aðstæður voru kannaðar á staðnum og ákveðið að ráðlegt væri að bíða fram yfir háfjöru þangað til tekið væri að falla að aftur og toga þá í skútuna. Farþegar skútunnar voru ferjaðir um borð í Ásgrím S. Björnsson en skipstjóri varð eftir í skútunni. Um hálftíma síðar var skútan farin að rétta sig við en kl. 20:53 höfðu björgunarbátar komið skútunni á flot.  Reyndist hún vera óskemmd eftir óhappið.

010709/HBS