TF-Líf aðstoðar við slökkvistarf

Föstudagur 24. júlí 2009

Beðið var um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar kviknaði í mosa og öðrum gróðri á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í Hafnarfirði. Eldurinn reyndist slökkviliðinu erfiður þar sem svæðið er nokkuð frá byggð og ekki hægt að komast að svæðinu akandi.

Var TF-Líf fengin til aðstoðar með slökkviskjólu sem hengd er neðan í þyrluna. Um 80 tonn af vatni voru notuð til að slökkva í eldinum og fór þyrlan 47 ferðir að Hvaleyrarvatni til að sækja vatn. Um kl. 23:00 lauk þyrlan hlutverki sínu og vöktuðu menn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins svæðið að slökkvistarfi loknu.

Kom notgildi slökkviskjólunnar vel í ljós í þessu flugi en erfitt hefði verið að koma svo miklu magni af vatni að staðnum eftir öðrum leiðum.

bambi_bucket_4

Slokkviskjola_TFLIF

Myndir frá æfingum flugdeildar Landhelgisgæslunnar og slökkviliðsins með slökkviskjóluna


240709/HBS