Landhelgisgæslan vísar tveimur skipum til hafnar fyrir meintar ólöglegar veiðar

Reykjavík 10. ágúst 2009

Varðskip og þyrla Landhelgisgæslunnar tóku í gær tvö skip sem staðin voru að meintum ólöglegum veiðum og vísaði þeim til hafnar þar sem lögreglan tók á móti þeim. Tekin var skýrsla af skipstjórum og hönd lögð á afla, gögn og búnað sem málið varðar samkvæmt því sem rétt er talið með hliðsjón af lögunum.

Annars vegar er um að ræða atvik þegar varðskip Landhelgisgæslunnar stóð togara að meintum ólöglegum togveiðum í hólfi á Vestfjarðamiðum þar sem áskilið er að hafa svokallaða smáfiskaskilju eða ákveðna lágmarskmöskvastærð. Um hádegi í gær kom varðskipið að skipinu og voru eftirlitsmenn sendir um borð í togarann til að kanna veiðarfæri og gögn skipsins.

Við skoðun eftirlitsmanna varðskipsins á veiðarfærum togarans kom í ljós að skipið var ekki búið svokallaðri smáfiskaskilju eða hafði þá lágmarksmöskvastærð sem áskilin er á þessu svæði. Meðalmöskvastærð trollpokans var undir þeirri lágmarksstærð sem áskilin er á svæðinu sé ekki notuð smáfiskaskilja. Var skipinu vísað til hafnar þar sem málið verður tekið fyrir. Tók lögreglan á móti skipinu þegar það lagði að bryggju á Akureyri kl. 05:30 í morgun.

Hins vegar var um að ræða handfærabát sem staðinn var að meintum ólöglegum handfæraveiðum innan bannsvæðis sem um gildir reglugerð nr. 693/2007 um bann við handfæraveiðum suður af Látrabjargi. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-Líf kom að bátnum og sást greinilega að báturinn hafði veiðarfæri sín í sjó. Skipstjóra bátsins var tilkynnt að bátnum yrði vísað til hafnar þar sem mál hans yrði tekið fyrir. Sigldi báturinn til hafnar í Ólafsvík þar sem lögreglan tók á móti honum um kl. 18:00 í gær.

Málin eru í höndum lögreglunnar og verða yfirmenn skipanna teknir til skýrslutöku í dag innan embætta sýslumannsins á Akureyri og sýslumannsins á Snæfellsnesi.

100809/HBS

Vardskip_eftirlit
Við eftirlitsstörf
Mynd LHG