Eftirlit varðskipanna skilar miklum árangri

Mánudagur 21. september 2009

Athygli hefur vakið hversu miklum árangri eftirlit varðskipsins Ægis hefur skilað sl. mánuði en skipið kom til hafnar sl. föstudag eftir að hafa verið við eftirlit og gæslustörf á suðvesturmiðum til suðausturmiða, suðausturdjúpi og Færeyjahrygg frá lokum ágústmánaðar. Á tímabilinu frá 1. júní til 18 september hefur varðskipið verið gert út í fimmtíu og sjö daga og farið til eftirlits í áttatíu og sjö skip og báta. Við eftirlit er gerð athugun á afla, veiðarfærum, réttindamálum og búnaði um borð. Gerðar hafa verið athugasemdir við búnað, réttindamenn hafa ekki verið með skírteini meðferðis, vöntun hefur verið á réttindamönnum um borð eða þeir verið með útrunnin réttindi og jafnvel réttindalausir. Þá hefur haffæri verið útrunnið í nokkrum tilfellum og eitt skip var staðið að meintum ólöglegum veiðum.

Aegir3_092009

Í kjölfar þessara skyndiskoðana hafa verið gefnar út fjórtán kærur á skipstjóra og tuttugu og átta skipstjórar hafa verið áminntir. Í síðustu ferð skipsins var þó engin kæra gefin út sem vonandi er til marks um það að eftirlitið sé að skila árangri og skipstjórar séu farnir að huga betur að þessum málum.

Þá hefur verið óvanalega mikið um mælingar á smáfiski á þessum tíma sem hafa leitt til fimmtán skyndilokana í samráði við fiskifræðinga Hafrannsóknarstofnunar. Mikið var um smákeilu í afla færeyskara línubáta við suðausturland í byrjun september eða 65-85% af keilu var undir 55 cm. Viðmiðunarmörk til skyndilokana á keilu eru 25% undir 55 cm. Á samráðsfundi fiskifræðinga Hafró og eftirlitsmanna Fiskistofu kom fram að búast mætti við svipuðu ástandi á þessum slóðum og var óskað eftir að Landhelgisgæslan sinnti mælingum áfram á þessu svæði þegar lokanirnar féllu úr gildi ef þess væri nokkur kostur þar sem erfitt væri fyrir Fiskistofu að koma eftirlitsmönnum um borð í færeysku bátana og ekki mætti búast við að íslensk línuskip sæktu mikið á þetta svæði.

Aegir2_092009

Af þessu má sjá að mikil þörf er á öflugu eftirliti varðskipa Landhelgisgæslunnar og svo ekki sé talað um að VERA TIL TAKS ef aðstoðar ef þörf á okkar erfiða hafsvæði.

Einnig hefur varðskipið komið til aðstoðar einu skipi vegna vélarbilunar og farið í útkall vegna leka sem upp kom í fiskiskipi. Auk þess kom varðskipið að könnun á skipsflaki í Faxaflóa og aðstoðað var við djúpköfun út af Garðskaga vegna gerðar heimildarmyndar um GOÐAFOSS sem sökkt var af þýskum kafbáti í síðari heimsstyrjöld.

Aegir1_092009
Fylgst með ferðum neðansjávarmyndavélar við könnun á skipsflaki

Á þessum tíma hefur verið haldin þrjátíu og ein æfing um borð þ.e. æfingar sem skylt er að halda vegna öryggis áhafnar, æfingar til að viðhalda þekkingu og reynslu til björgunar eða aðstoðar öðrum sæfarendum og samæfingar með flugdeild Landhelgisgæslunnar.

210909/HBS