Olíuskip með yfir 100.000 tonn af hráolíu sigla um efnahagslögsöguna

Föstudagur 2. október 2009

Síðustu daga hafa óvenju stór olíuskip átt leið um íslensku efnahagslöguna á siglingu frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Skipin eru Atlas Voyager og Nevskiy Prospect, bæði um 62.000 brúttótonn, 249 metrar að lengd og með yfir 100.000 tonn af hráolíu innanborðs.

Atlas Voyager sigldi vestur fyrir land og yfirgaf íslensku lögsöguna í dag en Nevskiy Prospect stefnir ekki fjarri ströndum við SA-land. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga fékk tilkynningar um siglingu skipanna frá skipaeftirlitsstöðinni Vardo VTS (e.vessel traffic service) í Norður Noregi. Skipin sendu ekki tilkynningar um siglingu innan hafsvæðisins eins og lög og reglur gera ráð fyrir og var því haft samband við þau. Skipstjórum virtist ekki vera kunnugt um reglur þessar en sendu stjórnstöð upplýsingar um ferðir sínar eftir að haft var samband við þau.

Grannt er fylgst með skipunum í eftirlitsbúnaði stjórnstöðvarinnar enda afar viðkvæmur farmur um borð sem myndi valda miklum skaða ef eitthvað færi úrskeiðis.

021009/HBS

AtlasVoy1
Atlas Voyager

AtlasVoyager2

Atlas Voyager

021009/HBS