Þyrla kölluð út - ungur maður alvarlega slasaður eftir að rörasprengja sprakk

  • NC2009_WEEK2_DOUG_ELSEY_PHOTO__104

Fimmtudagur 21. febrúar 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 20:32 á þriðjudagskvöld þegar beiðni um aðstoð hennar barst í gegn um Neyðarlínuna eftir að ungur maður lenti í flugeldaslysi í Hveragerði. Fór þyrlan í loftið kl. 20:40 til móts við sjúkrabifreið sem var á leið yfir Hellisheiði. Var lent á Bláfjallaafleggjara þar sem sjúklingur var fluttur yfir í þyrluna. Var maður mjög alvarlega slasaður og var lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 21:22.

Slysið varð þegar maðurinn var að búa til rörasprengju ásamt félaga sínum sem slasaðist ekki líkamlega. Voru þeir að setja saman sprengju þegar hún sprakk. Þrátt fyrir að sprengjan hafi verið lítil var hún feiknalega öflug og olli miklum skaða.

Að sögn Sigurðar Ásgrímssonar, yfirmanns sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar er gerð heimatilbúinna sprengja stórhættuleg, sér í lagi rörasprengja sem má segja að þær séu hættulegri en handsprengjur sem notaðar eru í hernaði. Púður sé í raun viðkvæmara en sprengiefni, það er sérstaklega hættulegt þegar því er komið fyrir í málmum. Ekki þarf nema púðuröfn í skrúfgangi til að sprengjan springi.

„Púður hefur þann eiginleika að þegar það brennur gerist það mjög hratt. Það verður einnig gríðarleg gasmyndun í púðri miðað við önnur efni. Meðal annars þess vegna er það notað í skotfæri. Þegar menn hleypa af skotvopnum þá kviknar í púðrinu og gasið sem myndast þeytir kúlunni út á ógnarhraða. Það er nákvæmlega það sama sem gerist inni í svona rörhólk. Eitthvert þarf gasið að komast og það sprengir því rörið í sundur með gríðarlegu afli." Sprengjubrot úr rörasprengju þeytast jafnvelhundruð metra og í gegnum létta veggi og hurðir. Þegar einstaklingur stendur nærri eða jafnvel við sprengjuna er því nær öruggt að alvarleg meiðsli hljótast af, eins og mýmörg dæmi sanna en að sögn Sigurðar hefur lítið verið um rörasprengjur á umliðnum árum en ef horft er um áratug aftur í tímann var sprengjusveit Landhelgisgæslu Íslands oftsinnis kölluð út vegna slíkra mála.