Varðskipið Óðinn 50 ára í dag

  • odinn

Miðvikudagur 27. janúar 2010

Landhelgisgæsla Íslands, Hollvinasamtök Óðins og Víkin Sjóminjasafnið fagna í dag 50 ára afmæli varðskipsins Óðins en skipið er nú hluti af Sjómannasafninu Grandagarði 8.

Varðskipið Óðinn kom til landsins 27. janúar 1960 en hann var smíðaður í Álaborg í Danmörku árið 1959. Skipið er 910 tonn að stærð, 63 m á lengd og 10 m á breidd.

Odinn_kemur_nyr_til_Rekjavikur_i_januar_1960

Við komu Óðins 27. janúar 2010

Varðskipið tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öldinni. Öflugasta vopn skipsins var 57 mm fallbyssa, staðsett á palli fyrir framan brúna. Þekktasta og árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum voru þó togvíraklippurnar, sem sjá má á afturdekki skipsins. Óðinn reyndist sérlega vel sem björgunarskip. Hann dró alls tæplega 200 skip til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró hann flutninga- og fiskiskip fjórtán sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa. Óðinn sinnti almennu veiðieftirliti alla tíð og beindist það bæði að íslenskum og erlendum skipum. Fylgjast þurfti með hvar var veitt og hvernig veiðarfærin voru. Einnig var Óðinn oft kallaður til þegar ófærð var í landi og erfiðleikar við fólks- og vöruflutninga, ekki síst í afskekktustu byggðum landsins.

Odinn.......

Síðasta sjóferð Óðins í þágu Landhelgisgæslunnar var farin í júní 2006 nánar en þá var stefnan tekin á Bretlandseyjar í kurteisisheimsókn. Á leiðinni var ákveðið að sigla um svæði þar sem erlendir togarar voru grunaðir um að halda sig án leyfis og tilkynninga. Stóð Óðinn færeyskan togara að því að sigla inni í íslenskri efnahagslögsögu án þess að tilkynna sig eða hafa veiðileyfi, var hann tekinn í landhelgi eins og talað var um áður fyrr. Í ferðinni var forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson sem lenti þar með í vinnu við skýrslugerð og að gefa lögfræðilegar ráðleggingar en skipherrann í síðustu ferð Óðins var Sigurður Steinar Ketilsson sem nú er skipherra á Tý.

Odinn_1980


Óðinn er með sérstaklega styrkt stefni og byrðing fyrir siglingar í ís. Um borð eru tvær aðalvélar sem skila 18 sjómílna ganghraða, ásamt ljósavélum. Siglinga- og fjarskiptatæki voru ætíð af bestu gerð. Dráttarspil var 20 tonna, fyrir 3 km langan dráttarvír.

Odinn_III_eftir_asiglingu_31

Óðinn eftir ásiglingu í þorskastríðinu

Myndirnar eru úr safni Valdimars Jónssonar loftskeytamanns sem Björn Bjarnason dfyrrv. óms- og kirkjumálaráðherra gaf Landhelgisgæslunni á tölvutæku formi í tilefni af flutningi höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar frá Seljavegi 32 í Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð.