Sif flýgur yfir norska gasflutningaskipið Arctic Princess fyrir sunnan land

  • Arctic_Pr

Miðvikudagur 27. janúar 2010

Landhelgisgæslan hefur síðastliðinn sólarhring fylgst með siglingu norska gasflutningaskipsins Arctic Princess sem er 288 metrar að lengd og kom inn í eftirlitskerfi stjórnstöðvar um 100 sjómílur A-af landinu en skipið er á siglingu yfir N-Atlantshaf frá Noregi til Bandaríkjanna.

Skipið sigldi ekki inn fyrir íslenska landhelgi en fór næst landi 12 sjómílur af eyjunni Hvalbak, austur af landinu. Skipið var í dag á siglingu suður af Dyrhólaey og hafði stýrimaður í áhöfn eftirlitsflugvélarinnar Sifjar samband við skipið og spjallaði við skipstjóra þess sem er Rússi. Var þá hjá skipinu 5 metra ölduhæð en skipið gekk á 15 mílna hraða þrátt fyrir það!

Sem fyrr segir er skipið á leið frá Hammerfest í Noregi til Cove Point í Bandaríkjunum. Arctic Princess er 121 þúsund tonn að stærð, 288 metrar að lengd, 49 metrar að breidd og ristir rúma 12 metra. Skipið er fjórum sinnum lengra en íslensku varðskipin Týr og Ægir en 121 sinni stærra ef borin eru saman brúttótonn skipanna.

Meðf. eru myndir sem teknar voru af áhöfn Sifjar fyrr í dag.

Arctic_Princess_LAGU6