Leit að línubát NV-af Garðskaga

Sunnudagur 31. janúar 2010

Fyrir hádegi í dag, sunnudag hvarf 12 tonna línubátur úr fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar. Var báturinn síðast staddur um 18 sjómílur NV af Garðskaga.

Landhelgisgæslan boðaði út björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði og Jón Oddgeir frá Njarðvík til leitar. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar Líf kölluð út.Nærstaddir bátar og skip voru beðin um að hætta veiðum og halda til leitar.

Kl. 12:15 kom línubáturinn Fiskanes að línubátnum, ekkert amaði að skipverjum en rafmagnsbilun um borð olli því að sendingar hættu að berast til Landhelgisgæslunnar.