Viðbúnaður vegna flugvéla á leið til landsins

Fimmtudagur 18. febrúar 2010

Talsverður viðbúnaður var á miðvikudag þegar björgunarmiðstöðin í Stavanger tilkynnti á kl. 10:18 um að samband hefði rofnað við flugvél á leið frá Odense til Keflavíkur. Síðasti þekkti staður flugvélarinnar var um 60 sjómílur NV frá Stavanger í 28000 feta hæð. Barst skömmu síðar tilkynning frá Flugstoðum um að flugstjórnarmiðstöðin sæji flugvélina á radar í eðlilegri uppgefinni flugleið. Ekki var talin ástæða til frekari aðgerða.

Um klukkustund síðar eða kl. 11:31 bárust skilaboð um óvissustig í Keflavík vegna lítillar flugvélar. Kl. 11:58 barst Landhelgisgæslunni beiðni frá flugstjórn um útkall þyrlu vegna lítillar flugvélar sem væri sambandslaus með þrjá menn um borð. Síðasti þekkti staður var um 50 sjómílur Austur af Keflavík. Þyrluáhöfn var þá kölluð út en um 15 mínútum síðar upplýsti flugstjórn að vélin hefði lent heilu og höldnu. Var þá útkalli aflýst.