Ekki hefur náðst samband við starfsmenn Landhelgisgæslunnar á skjálftasvæðinu í Chile
Laugardagur 27. febrúar 2010
Öflugur jarðskjálfti reið yfir Chile klukkan rúmlega hálfsjö í morgun laugardag, að íslenskum tíma.
Sex starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þar af tveir Íslendingar eru í borginni Concepcion í Chile vegna smíði á nýju varðskipi. Eru þeir þar við vinnu við lokaáfanga smíðinnar. Auk Íslendinganna eru fjórir danskir eftirlitsmenn á vegum Landhelgisgæslunnar við störf á staðnum.
Teymi starfsmanna Landhelgisgæslunnar vinnur að öflun upplýsinga og hefur öllum nauðsynlegum upplýsingum verið komið á framfæri við Utanríkisráðuneytið sem vinnur að málinu með Landhelgisgæslunni auk fleiri aðila. Öll síma- og tölvusamskipti við Chile liggja niðri vegna jarðskjálftans og því hefur ekki reynst unnt að ná til Chile.
Landhelgisgæslan vonar og biður að starfsmennirnir séu allir óhultir og sendir hlýjar kveðjur og góðar hugsanir til þeirra allra.