Danskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í Chile óhultir eftir jarðskjálftann

Laugardagur 27. febrúar 2010 kl. 17:50

Nú rétt í þessu fengust þær fregnir gegnum Danmörku að eiginkona eins Dananna sem starfar í Chile á vegum Landhelgisgæslunnar, hefði frétt af honum í gegnum tölvupóst sem virðist endrum og sinnum virka. Gat hann staðfest að allir Danirnir væru heilir á húfi. Byggingar þær sem þeir dvelja í eru lítið skemmdar þó innanstokksmunir hafi skemmst. Eru Danirnir nú að freista þess að komast yfir í þann borgarhluta sem tveir íslenskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar dvelja í til að fá af þeim fregnir.

Það er nokkrum erfiðleikum háð þar sem brýr sem skipta borgarhlutunum upp hafa fallið. Ætla þeir að reyna að komast yfir járnbrautarbrúnna sem er á milli borgarhlutanna en hún mun vera uppistandandi. Þetta eru mjög góðar fréttir og þá sérstaklega í ljósi þess að byggingarnar þar sem okkar menn búa eru sambærilegar eða betri að gæðum en þær sem Danirnir dvöldu í.

Við bíðum enn átekta og höfum allar leiðir í gangi til að ná til okkar manna.