Ófremdarástand í Concepcion - Gæslumenn bíða eftir að flugvöllurinn opni að nýju

Mánudagur 1. mars 2010

Fyrir skömmu síðan náðist samband við Ragnar Ingólfsson, starfsmann Landhelgisgæslunnar í Chile. Allt er í lagi með þá báða, Ragnar er hjá dönskum samstarfsmönnum, í húsnæði í úthverfi Concepcion og Unnþór er hjá chilenskum vinum í borginni.  Það er nú orðið ljóst að flugvöllurinn verður ekki opnaður fyrir annað en herflug fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudag eða fimmtudag. 

Ragnar gat í stuttu máli lýst ástandinu í Concepcion en þar ríkir skálmöld og gripdeildir eru miklar.  Það er mikil fátækt á ýmsum svæðum í Concepcion og svo virðist sem hinn fátæki maður hafi risið upp gegn hinum ríka.  Gengi fara um svæðið og ræna og rupla bæði verslanir og húsnæði og því reyna menn að halda kyrru fyrir í híbýlum sínum og sagði Ragnar að þeir skiptust á að standa vaktir, vopnaðir til að verjast ef á þarf að halda.

Það er matarskortur á svæðinu og bæði vatns- og rafmagnslaust.  Þetta er því algjört ófremdarástand en öllu skiptir að þeir félagar eru í  lagi og áfram verður reynt að koma þeim heim.  Meðal annars var að berast til okkar að danska utanríkisráðuneytið hyggst senda fulltrúa sinn í Santiago til Conception til að aðstoða Norðurlandabúa þar og koma þeim heim hið fyrsta. 

Ekki hafa borist frekari fréttir af Þór en fyrsta skoðun á skipasmíðasamningnum bendir til að ábyrgðin sé hjá skipasmíðastöðinni Asmar varðandi allt tjón en afhendingartími mun að sjálfsögðu lengjast án frekari bóta af þeirra hálfu.