Ragnar og Unnþór komnir til Santiago - fara heim við fyrsta tækifæri

Miðvikudagur 3. mars 2010

Snemma í morgun barst tölvupóstur til starfsmanna Landhelgisgæslunnar frá Ragnari Ingólfssyni flugvirkja sem staddur er í Chile. Þeir félagar komu til Santiago snemma í morgun eftir langt rútuferðalag frá Concepcion. Hér á eftir birtist pósturinn frá honum.

Sæl öllsömul,

 Var rétt í þessu að lenda inn á hóteli í Santiago ásamt 3 dönum eftir 13 tíma rútuferð frá Conception. Vegirnir hér fyrir sunnan eru mjög illa farnir, margar umferðarbrýr fallnar og djúpar gjár hafa myndast víða, svo rútan þurfti oft að þræða sveitavegi sem tók langan tíma. Unnþór og Ole eru í næstu rútu á eftir okkur.

Ástandið í Conception var þannig í morgun að frá birtingu og fram til kl. 12 þegar útgöngubanninu lauk heyrðum við stöðuga vélbyssuskothrið. Og þegar við keyrðum inn í bæinn var allt liðið farið sem hafði búið um sig á umferðareyjum og annarsstaðar þar sem var pláss. Sennilega var herinn að hrekja það út fyrir borgina. Það virðist sem að yfirvöld séu að reyna að fela hve slæmt ástandið raunverulega er. Danirnir keyrðu hér suður fyrir á laugardaginn og þeir segja að mörg lítil sjávarþorp sem þar voru séu horfin, flóðbylgjan hafi tekið þau. Við vorum að vona að rútan myndi stoppa fljótlega við einhvern af veitingastöðunum sem við sáum að voru opnir á leiðinni hingað, NEI hún stoppaði klukkan 22:30 og þá fengum við okkur morgunmat.

Nú förum við í að redda okkur fari heim

bestu kveðjur

Ragnar