Jarðvísindamenn skoða eldsumbrot við Eyjafjallajökul úr þyrlu og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar

Sunnudagur 21. mars 2010 kl. 02:00

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF fór frá Reykjavík kl. 01:40 með jarðvísindamenn til að kanna eldsumbrot við Eyjafjallajöklul úr lofti. Flugvélin TF-SIF fer í loftið um kl. 04:00 og verður jökullinn kannaður úr eftirlitsbúnaði vélarinnar, eru jarðvísindamenn einnig um borð í flugvélinni.

Varðskip er á svæðinu og verður það til taks ef þörf er á en um borð er eldsneyti fyrir þyrluna.

Eftirlits- og leitarratsjá um borð í TF-SIF býr yfir þeirri virkni að geta myndað yfirborð lands og sjávar úr mikilli fjarlægð. Þetta er gert með svokölluðu „SAR mode“ en þá er loftneti radarsins beint að viðkomandi svæði og á nokkrum sekúndum teiknar hann upp útlínur viðfangsefnisins að yfirborði þess svæðisins. Með þessu móti getur stjórnandi radarsins greint tegund skips í allt að 150 sml. fjarlægð.

Kortlagning radarsins á yfirborði lands gefur möguleika til leitar af farartækjum á landi, t.d. á jöklum og t.d. til að skoða mannvirki eins og flóðgarða eða vegi í kjölfar náttúruhamfara. Með þessu móti nýtist ratsjáin einnig vel til kortlagningar og greiningar á hafís og mengun.