Samtímis grennslast fyrir um tvo báta

Miðvikudagur 7. apríl 2010

Landhelgisgæslan hóf í morgun leit að tveimur bátum sem hurfu úr skjálfvirku tilkynningaskyldunni (STK). Var annar báturinn staðsettur fyrir norðan land en hinn fyrir austan. Kallað var á rásum 9 og 16, auk þess sem hringt var um borð og nærstödd skip beðin um að kalla í bátana. Leit fyrir norðan land bar árangur kl. 09:58 þegar sjófarandi kom auga á bátinn sem leitað var að. Sigldi hann að bátnum og bað hann um að hafa samband við Landhelgisgæsluna.

Ekki bar eftirgrennslan strax árangur fyrir austan land og var björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hafbjörg á Neskaupstað kallað út kl. 09:59 vegna bátsins sem datt út úr skjálfvirku tilkynningaskyldunni (STK) kl. 09:52 austur af Norfjarðarhorni. Var útkall afturkalla kl. 10:17 þegar báturinn hafði sjálfur samband við Landhelgisgæsluna og sagði allt í lagi um borð. Var skipstjóri áminntur um að hlusta alltaf á rás 16 og láta Landheilgisgæsluna vita ef hann sigldi mjög nærri landi eða á staði þar sem sjálfvirk tilkynningaskylda væri óstöðug.

Þann 1. janúar 2011 mun AIS - sjálfvirkt auðkennikerfi skipa leysa af hólmi Sjálfvirku tilkynningaskylduna - Racal STK kerfið í ferilvöktun skipa sem komið er til ára sinna og mikið um skuggasvæði meðfram ströndum landsins. Mun meira öryggi er fólgið í AIS kerfinu AIS (Automatic Identification System) eða sjálfvirku auðkenniskerfi skipa, eins og kerfið hefur verið nefnt á íslensku sem er rafrænt tilkynninga- og upplýsingakerfi um siglingar skipa. Þetta kerfi var innleitt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) árið 2001 til að auka öryggi skipa og umhverfis ásamt því að bæta eftirlit með siglingum skipa og siglingaþjónustu. Auðveldar kerfið vaktstöðvum að fylgjast með ferðum skipa og leiðbeina þeim. Nánar á heimasíðu Siglingastofnunar