Varúðar skal gætt í grennd við sæstrengi - mikilvægt að hafa ný sjókort

  • Saestrengir

Mánudagur 12. Apríl 2010

Undanfarið hefur Landhelgisgæslan sent kærur til lögreglustjóra vegna þess að skip hafa verið staðin að því að draga veiðarfæri yfir fjarskiptastrengi í sjó en það er bannað samkvæmt 71. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Bannað er að leggja veiðarfæri, sem fest eru í botni eða dregin eftir honum, eða varpa akkeri á svæði sem er mílufjórðungur hvorum megin við fjarskiptastrenginn. Hér er miðað við sjómílur en ein sjómíla er samtals 1852 metrar.Um er að ræða belti umhverfis fjarskiptastrengi í sjó sem er alls 926 metrar eða 463 metra belti sitt hvoru megin við strenginn. Eins og fram kemur í auglýsingu frá fyrirtækjunum Mílu og Farice í Íslenska sjómannaalmanakinu 2010, eru þessir sæstrengir eina tenging Íslands við umheiminn og eru gríðarlega mikilvægur hlekkur í samskiptum þjóðarinnar við helstu útflutningslönd sín. Afar mikilvægt er því að sjófarendur gæti ítrustu varúðar í námunda við strengina. Mjög dýrt er að bæta skemmdir á þeim og er viðgerð alfarið á kostnað þess sem tjóninu veldur. Þar sem strengirnir eru spennufæddir getur snerting við þá valdið manntjóni, bæði raflosti og brunasárum.K31_DanIce-Greenland_C

Staðsetning sæsímastrengja. Kort Sjómælingasvið LHG

Nánari upplýsingar um legu sæsímastrengja er að finna á heimasíðu Farice og heimasíðu Mílu. Háspennusæstrengir liggja einnig í sjó sbr. auglýsingar Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK í Íslenska Sjómannaalmanakinu 2010. Komi sæstrengur upp úr sjó á akkeri eða grunur leikur á að akkeri hafi fest á strengnum, ber að tilkynna það tafarlaust til orkufyrirtækis sem á strenginn. Aldrei má reyna að höggva streng í sundur til að losa skip, en það getur valdið alvarlegum slysum og jafnvel manntjóni, sbr. framangreindar auglýsingar.

Til að tryggja öryggi siglinga skal áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar afla samþykkis Siglingastofnunar Íslands fyrir legu þeirra. Áður en samþykki er veitt skal stofnunin leita álits hagsmunaaðila í sjávarútvegi sbr. 10. gr. laga um vitamál nr. 132/1999. Það er síðan hlutverk Siglingastofnunar að láta Landhelgisgæslu Íslands vita en Landhelgisgæslan sendir út Tilkynningar til sjófarenda og setur upplýsingar um legu sæstrengja í opinber sjókort skv. 4. og 17. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006.

Tilkynningar til sjófarenda eru m.a. birtar á heimasíðu Landhelgisgæslunnar. Afar mikilvægt er að sjófarendur hafi ný og uppfærð opinber sjókort þar sem allar upplýsingar liggja fyrir og gæti fyllstu varúðar í nánd við sæstrengi.