Íslenskt skip fær á sig brotsjó SV af Hvarfi

  • triton

Mánudagur 26. apríl 2010

Sjóbjörgunarmiðstöðin í Grönnedal á Suður Grænlandi hafði kl. 17:16 í gær samband við Landhelgisgæsluna og upplýsti að þeim hefði borist tilkynning um að kominn væri leki að íslensku skipi, Óskari sem staddur var 25 sjómílur SV af Hvarfi. Skömmu síðar bárust Landhelgisgæslunni frekari fregnir frá skipinu, komið hafði brotsjór yfir skipið og leki væri kominn í lest og vélarrúm. Talað var símleiðis við skipverja um kl. 21:10, sögðu þeir dælur skipsins hafa undan, því hefðu þeir ekki óskað eftir aðstoð.

Hafði sjóbjörgunarmiðstöðin í Grönnedal þrátt fyrir það kallað eftir aðstoð og voru tvö nærstödd skip á leið til Óskars, annað þeirra danska varðskipið TRITON, með LYNX þyrlu í viðbragðsstöðu ef illa færi. Veður var mjög slæmt á svæðinu og höfðu dælur skipsins varla undan.

Um kl. 01:30 var tilkynnt að skipið væri komið að ísröndinni og sjór orðinn skaplegur. Skipverjar höfðu þá stjórn á ástandinu en HDMS TRITON fylgir Óskari eftir til Nanartalik þar sem komið verður til hafnar seint á mánudagskvöld.

Mynd af Triton, www.forsvaret.dk