TF-GNÁ sækir veikan mann til Vestmannaeyja
Laugardagur 1. maí 2010
Landhelgisgæslunni barst í nótt kl. 03:33 aðstoðarbeiðni, í gegnum Neyðarlínuna, frá lækni í Vestmannaeyjum. Um var að ræða veikan mann sem flytja þurfti strax til Reykjavíkur. Eftir samráð við þyrlulækni var þyrluvakt kölluð út. Nokkur bið varð á flugtaki þar sem beðið var eftir að ástand sjúklings yrði stöðugra fyrir flutning.
Fór þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ í loftið kl. 0521 og var lent í Eyjum kl. 05:48 þar sem sjúklingur var undirbúinn og síðan fluttur yfir í þyrluna. Flugtak þaðan kl. 06:35 og lent við flugskýli LHG kl. 07:06 þar sem sjúkrabíll beið og flutti sjúkling á spítala. Báðar sjúkraflutningavélar Flugfélags Vestmannaeyja eru óflughæfar yfir helgina og var því leitað til Landhelgisgæslunnar.