Leikskólinn Víðivellir heimsækir flugdeild Landhelgisgæslunnar
6. maí 2010
Flugdeild Landhelgisgæslunnar fékk í morgun heimsókn fimmtán fróðleiksfúsra barna frá leikskólanum Víðivöllum í Hafnarfirði. Komu þau í langa leið í strætisvagni ásamt fjórum leikskólakennurum. Henning Þ. Aðalmundsson stýrimaður og sigmaður tók á móti þeim ásamt Bjarna Ágústi Sigurðssyni sem er þjálfunarstjóri.
Byrjað var á því að safnast saman í flugumsjón þar sem flugáhafnir fara að jafnaði yfir áætlanir fyrir hvert flug Landhelgisgæslunnar. Höfðu krakkarnir mikinn áhuga á Íslandskortinu sem þar er og komu margar spurningar tengdar gosstöðvunum og svæðinu sem ekki má fljúga inn fyrir vegna öskufallsins. Var síðan haldið í flugskýlið þar sem þyrlurnar Eir, Gná og Líf voru skoðaðar. Einnig var kíkt á flugvélina Sif áður en hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku, söng lög fyrir flugdeildina og tölti síðan aftur af stað í strætisvagninn.
Bjarni Ágúst Sigurðsson þjálfunarstjóri og Henning Þ. Aðalmundsson
stýrimaður með leikskólahópnum.