Bátur staðinn að ólöglegum veiðum á Breiðafirði
Mánudagur 10. maí 2010
Baldur, eftirlitsbátur Landhelgisgæslunnar var nýverið við eftirlit á Breiðafirði þegar komið var að grásleppubaujum sem staðsettar voru um 2 sjómílur innan bannsvæðis austan línu sem liggur úr Krossanesvita við Grundarfjörð norður í Lambanes á Barðaströnd. Samkvæmt reglugerð nr. 196/2009 er ekki leyfilegt að leggja grásleppunet austan við þá línu fyrr en 20. maí 2010. Voru báðar baujurnar merktar fiskibát sem var við grásleppuveiðar inni á leyfilegu svæði. Var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar gert viðvart.
Farið var um borð í bátinn til eftirlits en tveir menn voru í áhöfn. Voru þeir með með 220 net í sjó en aðeins má hafa 200 net þegar tveir menn eru í áhöfn skv. reglugerð. Gat skipstjóri bátsins aðeins gert grein fyrir 20 trossum bátsins. Við nánari rannsókn í gögnum bátsins fundust tvær lagnir inni á framangreindu bannsvæði. Var þeim gert skylt að taka upp lagnir netanna og var bátnum vísað til hafnar í Stykkishólmi þar sem lögregla tók á móti honum þar sem málið verður kært.