Áhöfn v/s Ægis heimsækir skóla ABC í Dakar

  • IMGP1064

Mánudagur 17.maí 2010

Varðskipið Ægir var nýlega við bryggju í Dakar, höfuðborg Senegal en eins og áður hefur komið fram sinnir skipið nú, fyrir Frontex, landamæraeftirliti á ytri landamærum Evrópusambandsins. Áhöfn varðskipsins var boðið í heimsókn til barnaskóla sem ABC hjálparstarf rekur í borginni til að kynnast starfseminni og skólastarfinu, en skipið afhenti skólanum nýverið hluti sem safnast höfðu á Íslandi til styrktar starfi þeirra. Fékk áhöfnin að afhenda börnunum fyrstu gjafirnar úr sendingunni einnig tók áhöfnin með sér blöðrur og kex til að gefa börnunum og vakti það mikla kátínu þeirra.

IMGP1598

Marvin Ingólfsson stýrimaður og Birkir Pétursson smyrjari dreifa kexi og blöðrum til götustrákana í athvarfinu.

Ellefu áhafnarmeðlimir fóru í heimsóknina en v/s Ægir liggur við herskipahöfn höfuðborgarinnar Dakar, sem afgirt er með gæslu. Akstur frá skipinu og að skólanum var nokkur upplifun fyrir áhöfnina en umferðamerki og götuvitar eru sjaldgæf sjón í Dakar sem er svipuð að flatamáli og Reykjavík en íbúar hennar eru rúmar 1.7 milljónir. Umferðargöturnar eru þröngar og illa merktar svo að erfitt er að rata. Fáar umferðareglur virðast í gildi sem veldur einu allsherjar öngþveiti. Verður umferðin mikið hægari fyrir vikið. Ekki flýta hestvagnarnir fyrir en af þeim er talsvert. Á umferðareyjum léku sér börn, stundum voru mæður þeirra með en ekki alltaf. Allstaðar var fólk með varning til sölu. Borgin er ósköp áhrjáleg, fátækt og skortur blasir við hvarvetna en fólkið er myndarlegt og snyrtilegt. Farið var í athvarf stráka sem koma af götunni og eiga við ýmiskonar vandamál að stríða. Geta þeir komið í athvarfið, fengið að borða, horft á sjónvarp og hvílst.

Var síðan haldið í skóla ABC þar sem brasilísku skólastjórahjónin José og Marlin de Silva tóku á móti áhöfninni en þau hafa starfað með götubörnum í 16 ár í Dakar og Guinea Bissau. Með þeim var landi þeirra og fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu sem sér um knattspyrnuskóla fyrir götudrengina og aðstoðarskólastjóri skólans sem er frá Senegal. Var farið var í skoðunarferð um skólann sem býður upp á nám í fjórum bekkjum fyrir um 150 nemendur sem af ýmsum ástæðum fá ekki inni í öðrum skólum. Öll börnin læra frönsku áður en eiginlegt bóknám hefst en skólanum er skipt upp í nokkur stig, allt frá leikskóladeild upp í fyrstu bekki grunnskóla. Í móttökusal skólans dönsuðu börnin  sungu og léku fyrir áhöfnina sem var að sögn Ægismanna ógleymanleg stund.

Næsti viðkomustaður var afdrep sem ABC rekur annarsstaðar í Dakar sem ætlað er götustrákum (fótboltastrákum). Þar geta þeir komið og æft fótbolta, körfubolta og ýmislegt fleira. Þessir strákar fengu hluta af þeim boltum og hjólum sem í sendingunni voru frá Íslandi. Þrátt fyrir dapurlög örlög götubarnanna leynir sér ekki að mikill metnaður og geta er hjá mörgum þeirra í fótboltanum. Umsjónarfólkið er gríðalega stolt af keppnisliði götudrengjanna sem stendur sig með miklum sóma.

Heimsókn áhafnarinnar til skólans var afar fróðleg og er mikil ánægja með að Landhelgisgæslunni tókst að veita samtökunum aðstoð með ferðinni til Senegal. Augljóst er að mikil þörf er á hjálparstarfi þar sem fátæk börn eru menntuð svo þjóðir þeirra verði færari um að hjálpa sér sjálfar.

IMGP1602

Komið inn í kennslustund

IMGP1619

Áhöfnin fylgist með í kennslustund

IMGP1650

Blöðrum og kexi dreift til barnana.

IMGP1726

Þessi hópur kenndi áhöfninni gildi þess að bjóða góðan daginn, biðja um leyfi,
þakka fyrir sig og nota almennar umgenisvenjur.

IMGP1657

Í móttökusal skólans var búið að skreyta með borða og fánum í tilefni dagsins með þökkum til íslensku þjóðarinnar og áhafnar Ægis.

IMGP1682

Krakkarnir fengu skólatöskur eftir að hafa farið með heilmikla ræðu.

IMGP1702

Tryggvi Ólafsson, vélstjóri og Jose stjórnandi skólans ræðast við

IMGP1719

Áhöfnin með einum hópnum.

IMGP1742

Þessi hópur dansaði fyrir áhöfninna.

IMGP1751

Stjórnendur ABC skólans í Dakar.

IMGP1766

Strákar ánægðir með eitt af hjólunum úr sendingunni f´rá Íslandi

IMGP1773

Óskar Skúlason bátsmaður sýnir tilþrif í í körfubolta.

IMGP1774

Áhöfn Ægis með fótboltadrengjunum.

IMGP1790

Marvin Ingólfsson stýrimaður afhendir Jose stjórnanda ABC skólans áttavita
frá áhöfninni fyrir hönd Landhelgisgæslunnar.

IMGP1816

Í lok heimsóknarinnar báðu þessir strákar um að sýna afrískan dans.

IMGP1827

Áhöfn Ægis fyrir utan skóla ABC í Dakar. F.v. Guðmundur St. Valdimarsson, Óskar Á Skúlason, Birkir Pétursson, Linda Ólafsdóttir,  Einar Hansen, Birgir H. Björnsson, Guðmundur R. Magnússon, Rafn S. Sigurðsson, Marvin Ingólfsson og Sævar M. Magnússon.

Myndir Áhöfn Ægis.