Einum manni bjargað eftir að bátur hans varð vélarvana

  • TF-EIR

Miðvikudagur 19. maí 2010

Landhelgisgæslunni barst í morgun kl. 10:36 aðstoðarbeiðni í gegn um Neyðarlínuna frá Mar GK-21, handfærabát með einn mann um borð, sem var vélarvana og við það að reka upp í Staðarberg vestan Grindavíkur. Hafði akkeri bátsins slitnað og kominn var leki að bátnum. Í eftirlitskerfum Landhelgisgæslunnar sást að einn bátur, Jói Brands, var í grennd við bátinn og var hann samstundis kallaður til aðstoðar en svartaþoka var á svæðinu. Jafnframt voru björgunarskip og björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar ræstar sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.

Örfáum mínútum síðar hafði Jóa Brands tekist að ná skipverjanum um borð og Jói Brands dró síðan  Mar frá landi en þá var hann við það að sökkva, örskammt frá brimgarðinum undan Staðarbergi.

Eru nú björgunarskip og björgunarbátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu. Oddur V. Gíslason björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar mun draga bátinn til hafnar en báturinn mun vera hálfsokkinn.