Landhelgisgæslan tekur þátt í prófunarferli Gilberts úrsmiðs/JS Watch

  • IMG_8540

Fimmtudagur 1. júlí 2010

Gilbert úrsmiður / JS Watch co. Reykjavik afhentu nýverið þrjátíu starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, áhöfnum loftfara, sprengjusérfræðingum og köfurum armbandsúr sem bera nafnið Sif. Eru úrin ætluð til eins árs prófunar sem er lokaliður í þróunar og hönnunarferli úranna sem staðið hefur yfir í tvö ár. Þegar leitað var til Landhelgisgæslunnar vegna verkefnisins var strax tekið vel í að prófa úrin enda um íslenska hönnun að ræða og ánægjulegt fyrir Landhelgisgæsluna að styðja við bakið á íslenskri hönnun og nýsköpun með þessum hætti.

JSWatchSifVardskip
Þyrlan TF-SIF með varðskipi Landhelgisgæslunnar.

JSWatchPresentation
Gilbert O. Gudjónsson úrsmiður kynnir sögu og samsetningu úrsins fyrir starfsmönnum. Mynd ÁS

Með verkefninu eru íslensk stofnun og íslenskt fyrirtæki að vinna saman að sameiginlegum hagsmunum, þ.e. öryggistæki fyrir Landhelgisgæsluna og vöruþróun og gæðastimpli fyrir JS Watch co. Markmið JS Watch með úrinu, sem hlotið hefur nafnið SIF - N.A.R.T. The NORTH ATLANTIC RESCUE TIMER, er að endurspegla seiglu og þrautseigju við hvaða aðstæður sem upp geta komið. Verkefni Landhelgisgæslunnar eru víðfeðm og taka til starfa í lofti, á láði og í landi.  Starfsmenn gæslunnar eru þrautþjálfaðir allir sem einn og taka verkefni sín alvarlega.  Það er með því augnamiði sem úrið Sif er hannað - að það standist gæðakröfur sem Landhelgisgæslan gerir til þess búnaðar sem unnið er með og treyst. 

JSWatchAfhending2
Við afhendingu. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Grimkell Sigurðsson hönnuður, Sigurður Gilbertsson, hönnuður og Gilbert O. Gudjónsson, úrsmiður ásamt flugstjóra, spilmanni/flugvirkja, flugmanni og sigmanni/stýrimanni í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar.Mynd ÁS


Hönnun og prófanir hafa staðið yfir í rúm tvö ár og er nú komið að því að láta reyna á úrið við erfiðar aðstæður þar sem meira reynir á starfsmenn, tæki og búnað en almennt gerist eða við björgunarstörf Landhelgisgæslu Íslands. Hvert úr mun því öðlast sögu og verður sú saga skráð með úrunum.

JSWatchCrasy_vether_og_kofun_005
Kafað með úrið. Mynd Óskar Á. Skúlason

Úrið er nefnt eftir björgunarþyrlunni TF-SIF sem kom til landsins haustið 1985 og var fyrsta björgunarþyrlan í eigu Landhelgisgæslunnar.  Áætlað er að TF-SIF hafi bjargað um 250 mannslífum á þeim 22 árum sem hún var í rekstri.  Var hún auk þess notuð við öll þau verkefni sem Landhelgisgæslunni er ætlað að sinna þ.e. leit og björgun, sjúkraflug,  löggæslu og eftirlit, sjómannafræðslu og þjálfun áhafna. Hún var í notkun til 17. júlí  2007 er henni hlekktist á við björgunaræfingu við Straumsvík.

Þyrlan kom að hundruðum björgunaraðgerða sem reyndu bæði á áhafnir og vélina enda eru íslenskar aðstæður með þeim erfiðustu í heimi. Það kom þó ekki í veg fyrir að hún tókst á við verkefni sem voru henni nær ofviða í ljósi þess að starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru engir venjulegir starfsmenn, heldur á meðal þeirra allra bestu á sínu sviði í heiminum.  Með þetta í huga var ákveðið að nefna úrið Sif.  Vísar nafnið því til þess að með vilja og dug er hægt að ná árangri þó aðrir telji það ómögulegt.  Það er einmitt það sem JS Watch hefur sýnt og sannað með þessu úri, að það er hægt að ná árangri með vilja og dugnaði.

Miklar vonir eru bundnar við nöfnu þyrlunnar, TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem kom til landsins í fyrrasumar. Hefur hún þegar sannað gildi sitt við eftirlit, auðlindagæslu og rannsóknir á eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, mun hún án efa vinna mörg afrek í framtíðinni.

JSWatchCrew
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar með úrið; Björn Brekkan flugstjóri,
Daníel Hjaltason spilmaður/flugvirki, Jens Þór Sigurðarson flugmaður
og Henning Aðalmundsson sigmaður/stýrimaður.Mynd ÁS

Armbandsúrið SIF - N.A.R.T.   The NORTH ATLANTIC RESCUE TIMER er massíft 1000 metra úr sem hannað er til að þola notkun við erfiðustu aðstæður sem upp geta komið. Er það smíðað úr massífum eðal stálklump sem fyrst er stansaður og síðan fræstur út og mótaður.  Úrið er með 4 mm safírgleri sem hefur gengið í gegnum margar mismunandi þrýsti- og álagsprófanir.   Eftir prófanir og árangur þeirra er hægt að merkja úrið sem 1000 metra úr, mesta sem íslenskt úr hefur komist niður á. Gangverk úrsins er sjálftrekkjandi og með 25 rúbínsteina á slitflötum. Úrin sem Landhelgisgæslan fær til prófunar verða með NATO Strap ólum sem eru gríðarlega sterkar og slitþolnar og henta því vel við þær aðstæður sem úrunum verður boðið upp á.
Nánari upplýsingar veitir....

Sigurður hjá Gilbert úrsmið / JS Watch co. Reykjavík
Sími: 551-4100
info@jswatch.com
www.jswatch.com

JSWatchWatch2
Úr JS Watch Sif.

JSWatchAfhending
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti tölu við athöfnina.
Mynd ÁS


Meðfylgjandi myndir tóku Jón Páll Áseirsson, Óskar Á. Skúlason og
Árni Sæberg fyrir JS Watch co/Landhelgisgæsluna