Sigmaður þyrlunnar réri vélarvana bát í land

Fimmtudagur 8. júlí 2010

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar lenti í óvenjulegu útkalli síðdegis í dag þegar TF-GNA var á heimleið úr æfingu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst aðstoðarbeiðni vegna báts sem var vélarvana á Úlfljótsvatni. Vegna hvassviðris rak bátinn stjórnlaust um vatnið en sagt var að um borð væri maður með þrjú börn. TF-GNA var komin að bátnum 10 mínútum eftir útkallið og var þá aðeins einn maður í bátnum.

Seig sigmaður þyrlunnar strax niður í bátinn og fékk hann þá þær upplýsingar frá bátsverja að maðurinn hefði sett börnin í land nokkru áður en báturinn varð vélarvana. Náði hann ekki að koma bátnum í gang og vegna hjartasjúkdóms hafði hann ekki þrek til að róa bátnum að landi í hvassviðrinu. Tók þá sigmaður þyrlunnar, sem einnig er stýrimaður, við að róa bátnum í land.

Flutti TF-GNA síðan bátsverjann til fjölskyldu sinnar sem stödd var hinu megin við vatnið ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum. Var maðurinn mjög þakklátur fyrir aðstoðina. Að sögn sigmanns þyrlunnar var ekki um raunverulega hættu að ræða en þar sem þyrlan var í nágrenninu þegar útkallið barst kom ekki annað til greina en að fara til aðstoðar, sagði hann það einnig hafa verið gaman að fá að róa í land enda hafði hann ekki snert við slíku nokkuð lengi.