TF-SIF sinnir mengunareftirliti á Mexíkóflóa

Miðvikudagur 14. júli 2010

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF hélt miðvikudaginn 14. júlí til Houma í Louisiana þar sem flugvélin mun næstu fjórar vikur eða til 15. ágúst, sinna mengunareftirliti á Mexíkóflóa fyrir BP- British Petroleum. Bandaríska strandgæslan hefur yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins en TF-SIF leysir af flugvél samgöngustofnunar Kanada, Transport Canada við verkið. Sú flugvél er sömu tegundar og TF-SIF en þær eru báðar útbúnar öflugum hliðarradar „Side-looking airborne radar“ (SLAR) sem er sérhannaður fyrir mengunareftirlit.

Verkefni TF-SIF felst í að kortleggja olíumengun á svæðinu suður af New Orleans og verður áhersla lögð á að meta hvar olían er í hreinsanlegu magni .

Öll gögn frá TF-SIF verða send sameiginlegri vettvangsstjórnstöð BP og US Coastguard, þar sem fulltrúi Landhelgisgæslunnar verður staðsettur. Daglega eru haldnir fundir þar sem farið er yfir stöðuna og næstu skref ákveðin en í stjórnstöðinni starfa á annað hundrað manns frá ýmsum löndum og stofnunum.

BPHoumaGunnarOrntekurvid

Á meðfylgjandi mynd sést hvar Gunnar Örn Arnarson, stýrimaður tekur við "Operation" vestinu af Kanadamanninum Serge Leger, en Gunnar mun starfa í samhæfingarmiðstöð BP / US Coastguard  skammt frá flugvellinum ásamt ásamt Hólmari Loga Sigmundssyni, aðstoðarflugrekstrarstjóra.

 Houma_SIFkoma

TF-SIF að koma til Houma og á myndinni er einnig Dash 8 flugvél Kandamanna
sem Landhelgisgæslan leysir af til 16. ágúst. Mynd Gunnar Örn.



SIFMEX_IMG_3488
Áhöfn TF-SIF við brottför;
F.v.  Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Benóný Ásgrímsson, flugstjóri,
Garðar Árnason, flugmaður og Hreggviður Símonarson, stýrimaður.
Á myndina vantar Auðunn F. Kristinsson, yfirstýrimann, Hólmar Loga
Sigmundsson, aðstoðarflugrekstrarstjóra og Gunnar Örn Arnarson,
stýrimann.

TF-SIF fylgja sjö starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem verða á staðnum tvær vikur í senn. Fjórir eru í áhöfn vélarinnar. Með þeim í för verða flugvirki og flugumsjónarmaður. Sem fyrr segir verður einn starfsmaður Landhelgisgæslunnar staðsettur í sameiginlegri vettvangsstjórnstöð í Houma. Reiknað er með að í hverju flugi verði einn starfsmaður frá bandarísku strandgæslunni.

SIFMEX_IMG_3504
TF-SIF leggur í langt ferðalag.

Áætlað er að flogið verði 5-6 daga í viku,  samtals rúmlega 100 flugtíma.    Aðstoð og þátttaka Landhelgisgæslunnar sýnir að þegar stórslys verða þurfa þjóðir,  jafnt litlar sem stórar, á aðstoð að halda.  Landhelgisgæslan er stolt af að geta orðið bandarísku strandgæslunni og BP að liði í þessu stóra verkefni.  Jafnframt mun Landhelgisgæslan og starfsmenn hennar fá mjög mikla reynslu á sviði mengunareftirlits og auðlindavörslu með þátttöku í starfi þessu. Fær Landhelgisgæslan greiddan útlagðan kostnað, launakostnað og leigu fyrir flugvélina.

SIFMEX_IMG_3508

Á meðan TF SIF er í verkefnum erlendis mun Landhelgisgæslan hafa aðgang að flugvél Mýflugs, TF FMS, til leitar- og eftirlitsstarfa.  Sú flugvél er með búnað til að greina skip ( AIS búnað) og ágæta útsýnisglugga til leitar en er hins vegar með einfaldan og almennan radarbúnað. Hefur sú vél áður verið notuð í fjarveru eða sem viðbót við flugvél Landhelgisgæslunnar.

Myndir Jón Páll Ásgeirsson.