Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2009 er komin út

Föstudagur 16. júlí 2010

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2009 er nú komin út og má nálgast hana hér. Í inngangi ársskýrslunnar ræðir Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar um árið 2009 sem afar viðburðarríkt ár sem umfram allt einkenndist árið af krafti og samhug starfsmanna sem þrátt fyrir þrengingar í rekstri sýndu engan bilbug heldur lögðust á eitt við að rækja skyldur Landhelgisgæslunnar í að standa vörð um fullveldisrétt Íslands á hafsvæðinu í kringum landið. Alþjóðasamskipti voru mikil á árinu en samskipti og samvinna með systurstofnunum nágrannaþjóðanna er mikilvægur þáttur í að tryggja öryggi á hafinu.

Aegir_LIFMyndir_vardskipstur
TF-LIF og Ægir við æfingar.

Með komu nýrrar leitar-, eftirlits- og björgunarflugvélar, TF-SIF þann 1. júlí 2009 hófst nýr kafli í starfseminni. TF-SIF leysti af hólmi TF-SYN sem þjónað hafði Landhelgisgæslunni dyggilega í rúm 32 ár. Einnig var eftirminnileg sú stund þegar nýtt fjölnota varðskip Íslendinga var sjósett þann 29. apríl við hátíðlega athöfn í ASMAR skipasmíðastöð sjóhersins í Chile og um leið gefið nafnið Þór. Mun varðskipið gjörbreyta viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar á sviði leitar-, björgunar- , eftirlits og auðlindagæslu á Norður-Atlantshafi.

SIF_FlugskyliLHG

TF-SIF við komuna til landsins.

Þrátt fyrir samdrátt í rekstri eru spennandi tímar framundan með metnaðarfullu
starfsfólki og nýjum tækjabúnaði sem skapar ómæld tækifæri fyrir Landhelgisgæsluna og íslenska þjóð. Með öryggi og fagmennsku að leiðarljósi er Landhelgisgæslan til taks til að sinna sem best þjónustu við landsmenn á sviði leitar- og björgunar sem og öryggis- löggæslu og eftirlits á hafinu umhverfis Ísland.

Myndir Árni Sæberg.