TF-LÍF sækir sjúkling um borð í rússneskan togara

Mánudagur 2. ágúst 2010

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, sótti í nótt sjúkling um borð í rússneska togarann NIDA sem staddur var djúpt suðvestur af Reykjanesi. Þyrlan flaug 160 sjómílur út í haf til móts við togarann en sjúkraflugið tók um þrjár klukkustundir.

Landhelgisgæslunni barst aðstoðarbeiðni frá umboðsmanni togarans kl. 19:16 í gærkvöldi sem tilkynnti um alvarlega veikan mann um borð í togaranum. Skipið var þá statt 260 sjómílur suðvestur af Reykjanesi og sigldi af stað í átt til lands. Hafði þyrlulæknir samband við skipið og staðfesti nauðsyn þess að sækja manninn.

Þegar flogið er svo langt á haf út er nauðsynlegt yrði að hafa aðra þyrlu tiltæka. Tókst fljótlega að kalla saman þyrluáhöfn í viðbragðsstöðu. Vegna flugdrægis þyrlunnar yrði þó að bíða með flugtak til kl. 03:30 en reiknað var með að skipið yrði komið í rétta fjarlægð frá landi kl. 04:45.

Var TF-LÍF komin í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 3.33 í nótt og flaug til móts við skipið. Komið var að togaranum kl. 04:57 þegar togarinn var um 140 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Sjúklingurinn var kominn um borð í þyrluna klukkan 5.04. Lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli kl. 06:35 þar sem sjúkrabifreið beið og flutti sjúklinginn á Landspítalann í Fossvogi. Gekk flugið í alla staði vel fyrir sig.