TF-SIF snýr heim frá Louisiana

Mánudagur 15. ágúst 2010

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF kom til Reykjavíkur á sunnudagskvöld. Flogið var frá Houma í Louisiana með millilendingu í Syracuse í New York fylki og Goose Bay á Nýfundnalandi.

Síðastliðinn mánuð hefur TF-SIF sinnt mengunareftirliti á Mexíkóflóa fyrir bandarísku strandgæsluna og BP. TF-SIF stoppar þó stutt við hér á landi því um næstu helgi verður haldið til Dakar í Senegal þar sem flugvélin mun sinna áframhaldandi eftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins.

SIF_FlugskyliLHG
TF-SIF við komuna til Íslands, 1. júlí 2009. Mynd Árni Sæberg.

Yfirumsjón með framkvæmd mengunareftirlits á Mexíkóflóa er í höndum bandarísku strandgæslunnar sem Landhelgisgæslan hefur lengi átt í góðu samstarfi við. Var TF-SIF fengin til að leysa af flugvél samgöngustofnunar Kanada, Transport Canada við verkið. Flugvél þeirra er sömu tegundar og TF-SIF en báðar eru þær útbúnar öflugum hliðarradar „Side-looking airborne radar“ (SLAR) sem er sérhannaður fyrir mengunareftirlit.

Verkefni TF-SIF hefur falist í að kortleggja olíumengun á svæðinu suður af New Orleans. Öll gögn frá TF-SIF voru send sameiginlegri vettvangsstjórnstöð US Coastguard  og BP þar sem fulltrúi Landhelgisgæslunnar var jafnframt staðsettur.