Ungt fólk í fermingarfræðslu heimsækir varðskip
Föstudagur 20. ágúst 2010
Varðskip Týr fékk nýverið heimsókn ungs fólks sem mun næsta vor fermast í Dómkirkjunni. Voru þau í fylgd Sr. Hjálmars Jónssonar, dómkirkjuprests og Sr. Þorvaldar Víðissonar æskfulltrúa kirkjunnar. Fermingarfræðsla Dómkirkjunnar hefst á haustin með námskeiði sem stendur yfir í fjóra daga og lýkur því með vettvangsferð en heimsókn þeirra um borð í varðskipið var einmitt hluti af slíkri ferð.
Halldór Gunnlaugsson skipherra og Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tóku á móti hópnum á þilfarinu og buðu þau velkomin um borð. Fengu þau síðan leiðsögn um helstu vistarverur varðskipsins. Voru þau hvött til að spyrja spurninga og fræðast um helstu verkefni varðskipanna sem eru m.a. að sinna hefðbundnu eftirliti á siglingu umhverfis Ísland en einnig eru skipin ávallt reiðubúin að bregðast við hverjum þeim verkefnum sem Landhelgisgæslan þarf að sinna, hvort sem um er að ræða löggæslu, öryggisgæslu, leit, björgun eða aðstoð jafnt við sjófarendur sem landsmenn.
Hópurinn á þilfarinu við lok heimsóknarinnar
Halldór Gunnlaugsson, skipherra segir frá verkefnum varðskipanna.
Tækjabúnaður í brúnni vekur ætíð mikla athygli.
Efnilegir ungir menn með Jóni Páli Ásgeirssyni, stýrimanni.
Nauðsynlegt að prófa sætin í brúnni. Sr. Hjálmar Jónsson fylgist grannt með.
Komið við í fundarherbergi varðskipsins og gestasvítunni.
Myndir JPA og HBS