TF-LIF sækir slasaða konu á Öræfajökul

Sunnudagur 22. ágúst 2010

Landhelgisgæslunni bárust kl. 19:23 í kvöld boð frá Neyðarlínunni um konu sem hafði slasast á fæti í Hrútfjallstindum í Öræfajökli. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 19:28 þar sem talið var erfitt að koma konunni niður af jöklinum.

TF-LIF fór í loftið kl. 20:02 og var hún komin á slysstað kl. 21:10. Ekki reyndist unnt að lenda á slysstað og var því lent við Freysnes til að létta þyrluna áður en haldið var aftur á slysstað þar sem hin slasaða var hífð um borð ásamt tveimur ferðafélögum. Lent var við Freysnes aftur þar sem sjúkrabifreið beið sem flutti hina slösuðu á heilsugæslu.. TF-LIF lenti síðan í Reykjavík kl. 23:35.