Fræðsla um Senegal fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar

  • SIF_FlugSjo1

Sunnudagur 22. ágúst 2010

TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar flaug í gær áleiðis til Dakar í Senegal þar sem flugvélin mun næstu vikur sinna landamæraeftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Átta starfsmenn Landhelgisgæslunnar, flugmenn, stýrimenn og flugvirkjar fylgja vélinni en einnig er einn starfsmaður staðsettur í stjórnstöð Frontex í Madrid. TF-SIF er væntanleg aftur til Íslands í október. Varðskipið Ægir hefur sinnt sama verkefni frá byrjun maí. Fyrst var skipið við strendur Senegal en í júlí sigldi Ægir til Almería á Spáni en þaðan sinnir varðskipið eftirliti á Miðjarðarhafi fram til loka septembermánaðar.

AhofnSIF21082010
Áhöfn TF-SIF. F.v. Benóný Ásgrímsson, flugstjóri, Hreggviður Símonarson,
stýrimaður, Ragnar Ingólfsson flugvirki, Tómas Vilhjálmsson, flugvirki og Garðar Árnason, flugmaður. Á myndina vantar Auðunn F. Kristinsson, stýrimann og
Hólmar Loga Sigmundsson, aðstoðarflugrekstrarstjóra.


Eru starfsmenn Landhelgisgæslunnar með verkefninu að fara í gegnum heilmikla og verðmæta þjálfun sem mun án efa koma sér vel í framtíðinni. Fyrir brottför var þeim boðið uppá fræðslu um Senegal; menningu landsins, trúarbrögð, siði og fleira enda er nauðsynlegt að vera sem best undir það búin að dvelja í landinu og tileinka sér þá siði og venjur sem þar tíðkast.

BrottforTFSIF
Fyrir brottför, Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri og Georg Kr. Lárusson
forstjóri ásamt Benóný Ásgrímssyni, flugstjóra og Garðari Árnasyni, flugmanni.

IMG_1289

TF-SIF rétt fyrir flugtak

Voru starfsmenn mjög ánægðir með kynninguna sem gerðu þá enn betur undirbúna fyrir veruna í Senegal. Fræðslan var í umsjón Lilju D. Kolbeinsdóttur, kennara og MA í þróunarfræði sem hefur starfað í um tíu ár í Afríku. Áhöfn varðskipsins fór í gegnum fræðslu hennar  í vor en áhöfn flugvélarinnar nú fyrir skömmu. Sagði Marvin Ingólfsson stýrimaður og sprengjusérfræðingur starfsmönnum flugdeildar einnig frá reynslu sinni og annarra varðskipsmanna en Marvin var meðal þeirra sem var í áhöfn varðskipsins í Senegal.

IMG_1258
Lilja D. Kolbeinsdóttir segir frá.

IMG_6751
Frá fræðslu í flugdeildarinnar

Sem fyrr segir er Lilja kennari að mennt með MA í þróunarfræði og hefur starfað í um tíu ár í Afríku. Hún starfaði í Angóla á árunum 1996-2001 fyrir frjáls félagasamtök og Angólanska menntamálaráðuneytið við uppbyggingu á kennaranámi í Huambo og Benguela héruðum. Á árunum 2004-2009 starfaði Lilja sem verkefnastjóri félagslegra verkefna á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda. Þar bjó hún í höfuðborginni Kampala en ferðaðist títt á verkefnasvæðin, þó aðallega í fiskimannasamfélög á eyjum Viktóríuvatns. Þar fyrir utan hefur Lilja starfað til skemmri tíma í Mósambík og ferðast til fjölda landa sunnan Sahara (Namibíu, Sambíu, Simbabve, Suður Afríku, Kenía, Gambíu og Malí).