Tundurdufli eytt á Snæfellsnesi

Miðvikudagur 8. september 2010

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa nú lokið við að eyða tundurdufli sem togbáturinn Skinney fékk í botnvörpuna við veiðar suður af Snæfellsjökli í morgun. Var um að ræða breskt tundurdufl frá seinni heimstyrjöldinni sem var býsna heillegt að sögn sprengjusveitarmanna. Reiknað er með að um 220 kíló af sprengiefni hafi verið inni í duflinu.

Þegar sprengjusérfræðingar komu um borð í Skinneyju var tundurduflið þegar undirbúið fyrir flutning. Var tundurduflið síðan flutt á afskekkt svæði utan við Rif á Snæfellsnesi þar sem því var eytt. Alltaf er gert ráð fyrir hinu versta þegar tundurdufl koma í veiðarfæri því ekki er útilokað að gamall búnaður springi þrátt fyrir langa legu í sjó.

08092010DuflRif
Dufið undirbúið fyrir flutning úr Skinneyju

08092010Dufl2
Mikill kraftur var í duflinu þegar því var eytt

08092010Dufl3
Sprengjusveitarmenn standa við "gíginn" þar sem duflinu var eytt.