TF-GNA sækir alvarlega veikan sjómann

Miðvikudagur 8. september 2010

Landhelgisgæslunni barst kl. 06:41 í morgun aðstoðarbeiðni frá togaranum Björgvin EA vegna skipverja sem var alvarlega veikur.  Var togarinn staddur um 50 sjómílur austur af landinu.  Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNA sem fór í loftið frá Reykjavík kl. 08:15,  var millilent á Höfn til eldsneytistöku.

Kom þyrlan að togaranum um kl. 11:20  og var sjúklingur kominn um borð í TF-GNA kl. 11:33. Var þá haldið á flugvöllinn á Egilsstöðum þar sem lent var kl. 12:00. Var sjúklingur þá fluttur um borð í sjúkraflugvél frá Mýflug sem flutti hann til Reykjavíkur.

Síðdegis barst Landhelgisgæslunni þakkarskeyti frá Samherja vegna aðstoðarinnar.