TF-LIF kemur til bjargar slösuðum hestamanni

Fimmtudagur 9. September 2010

Landhelgisgæslunni barst kl. kl. 21:08 í gærkvöldi beiðni frá Neyðarlínunni um þyrlu vegna hestamanns sem slasast hafði í Þorgeirsfirði í Fjörðum. Í fyrstu var talið að hestamaðurinn hefði axlarbrotnað og var björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar frá Grenivík var kölluð út ásamt hjúkrunarfræðingi. Skömmu síðar komu skilaboð um að endurlífgun væri hafin og talið var nauðsynlegt að senda þyrlu þar sem erfitt var fyrir björgunaraðila að komast á staðinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF var þá kölluð út en þyrluáhöfnin var þá nýkomin úr níu klukkustunda löngu útkalli í togara fyrir austan land.  

Fór TF-LIF frá Reykjavík kl. 21:57 og var komin á slysstað kl.23:28. Þá höfðu björgunarsveitarmenn sem komnir voru á vettvang fundið lendingarstað fyrir þyrluna og leiðbeindu henni í lendingu. Síðan var sá slasaði undirbúinn undir flutning og fluttur um borð í þyrluna.

TF-LIF lenti svo við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri rétt eftir miðnætti. Þar sem hluti þyrluvaktar hafði þá verið að störfum í um  sextán tíma var ákveðið að áhöfnin færi í hvíld á Akureyri.