Þrjú þyrluútköll um helgina

  • TFLIF_2009

Sunnudagur 3. október 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út þrisvar sinnum um helgina til bráðaflutninga og leitar á Reykjanesi. Á laugardag Kl. 11:08 barst beiðni um þyrlu vegna alvarlega veiks sjúklings sem var í sjúkrabifreið við Vík í Mýrdal á leið til Reykjavíkur. TF-LIF sem var við æfingar með Flugbjörgunarsveitinni í nágrenni Reykjavíkur var strax kölluð út og hélt hún á móti sjúkrabílnum. Mættust þyrla og sjúkrabíll við Heimaland kl. 11:41, þar sem sjúklingur var fluttur yfir í þyrluna sem hélt til Reykjavíkur og lenti við Borgarspítalann kl. 12:18. Annað útkall barst kl. 16:28 þegar Neyðarlínan óskaði eftir þyrlu vegna bílsslyss við bæinn Núpa skammt austan við Kirkjubæjarklaustur. Fór TF-LIF í loftið kl. 16:48 og hélt beina leið austur á móti sjúkrabíl sem beið við flugvöllinn í Vík í Mýrdal . Lent var á flugvellinum kl. 17:48. Voru hinar slösuðu fluttar um borð í þyrluna sem síðan hélt beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var kl. 18:39.

Á sunnudag kl. 13:40 óskaði Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar við leit að manni sem saknað hefur verið í nokkra daga. Var B-vakt þyrlu á leið í æfingu en tók að sér að leita svæðið frá Grindavík til Straumsvíkur. TF-GNA leitaði með ströndinni frá Grindavík, um Reykjanes, Garðskaga og að Straumsvík. Var leit hætt kl. 15:35, án árangurs.