Togari vélarvana 3,5 sjómílur N- af Kögri

Föstudagur 5. nóvember 2010

Landhelgisgæslunni barst í gærmorgun kl. 09:19 tilkynning frá skuttogaranum Venusi HF-519 um að togarinn væri vélarvana um 3,5 sjómílur Norður af Kögri. Unnið var að viðgerð og taldi áhöfn að togarinn kæmist í lag fljótlega. Óskaði togarinn samband að nýju kl. 09:24 þar sem óskað var eftir aðstoð.

Hafði Landhelgisgæslan samstundis samband við nærstödd skip, Berglín/TFCO, Baldvin Njálsson/TFTF, Sigurbjörgu/TFMO og Labrador Storm/CGDM sem var næstur og öflugastur. Var hann staddur 18 sml austur af Venusi og sneri hann strax við og fór til aðstoðar. Hin skipin héldu einnig áleiðis en aðstoð þeirra var afboðuð þegar ljóst var að Labrador Storm yrði mun fyrr á staðinn. Einnig voru björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum kölluð út.

Venus tilkynnti Landhelgisgæslunni kl. 10:45 að skipverjum hafi tekist að lagfæra bilunina og var vélin komin í gang. Labrador Storm og bakvakt Slysavarnarfélagsins Landsbjargar var gert viðvart og útkallið afturkallað. Var Venus kominn á fulla ferð á miðin 15 mínútum síðar.