TF-GNA tekur þátt í leit í nágrenni Húsavíkur

Mánudagur 15. nóvember 2010

Lögreglan á Húsavík gerði Landhelgisgæslunni viðvart kl. 17:17 á sunnudag um neyðarblys sem sést hafði frá Húsavík í vesturátt, í átt að hæsta tindi Víknafjalla. Ekki var vitað um ferðir skipa á þessum slóðum en vangaveltur voru um að þarna gætu verið vélsleðamenn á fjallgarðinum vestan við flóann eða rjúpnaskyttur. Þar sem þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var á flugvelli, vegna fyrirhugaðrar æfingar, var henni beint á svæðið og leitaði hún út Flateyjardal og  Skjálfandaflóa að vestanverðu, án þess að finna nokkuð. TFGNA lenti síðan á Húsavík kl. 21:07 til skrafs og ráðagerða við björgunarsveitina á staðnum, sem einnig hafði verið kölluð út og sent björgunarskip til leitar. Var síðan ákveðið að hætta leit. TFGNA flaug þá til Akureyrar og tankaði þar, var síðan haldið til Reykjavíkur þar sem var lent kl.00:41.