LHG tekur þátt í vöruþróun fyrir JS Watch


Í dag birtust fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar, sprengjussérfræðingur,  flugstjóri, sigmaður þyrlu og kafari í auglýsingu fyrir Gilbert úrsmið/ JS Watch . Ástæðan er sú að Landhelgisgæslan ákvað fyrr á árinu að styðja við bakið á íslenskri hönnun og nýsköpun með því að taka þátt í vöruþróun úrs sem hlotið hefur nafnið Sif og er hannað af Gilbert úrsmið/ JS Watch.  Úrið er nefnt eftir björgunarþyrlunni Sif sem kom til landsins haustið 1985 og var fyrsta björgunarþyrlan í eigu Landhelgisgæslunnar.  Áætlað er að Sif hafi bjargað um 250 mannslífum á þeim 22 árum sem hún var í rekstri og eru miklar vonir eru bundnar við Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar, nöfnu þyrlunnar  sem kom til landsins í fyrrasumar. Hefur hún þegar sannað gildi sitt á árinu við eftirlit, auðlindagæslu og rannsóknir á hafsvæðinu og við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.
Prófun armbandsúranna er lokaliður í  þróunar og hönnunarferli sem staðið hefur yfir í tvö ár. Með verkefninu eru íslensk stofnun og íslenskt fyrirtæki að vinna saman að sameiginlegum hagsmunum, þ.e. öryggistæki fyrir Landhelgisgæsluna og vöruþróun og gæðastimpli fyrir JS Watch co. Úrin eru prófuð við erfiðar aðstæður þar sem meira reynir á starfsmenn, tæki og búnað en almennt gerist eða við björgunarstörf Landhelgisgæslu Íslands. Hvert úr öðlast sögu og verður sú saga skráð með úrunum.
Markmið JS Watch með úrinu, sem hlotið hefur nafnið SIF - N.A.R.T.   The NORTH ATLANTIC RESCUE TIMER,  er að endurspegla seiglu og þrautseigju við hvaða aðstæður sem upp geta komið. Verkefni Landhelgisgæslunnar eru víðfeðm og taka til starfa í lofti, á láði og í landi.  Þyrlan Sif var var notuð við öll þau verkefni sem Landhelgisgæslunni er ætlað að sinna þ.e. leit og björgun, sjúkraflug,  löggæslu og eftirlit, sjómannafræðslu og þjálfun áhafna. Hún var í notkun til 17. júlí  2007 er henni hlekktist á við björgunaræfingu við Straumsvík. Þyrlan kom að hundruðum björgunaraðgerða sem reyndu bæði á áhafnir og vélina enda eru íslenskar aðstæður með þeim erfiðustu í heimi. Vísar nafnið Sif til þess að með vilja og dug er hægt að ná árangri þó aðrir telji það ómögulegt.  Það er einmitt það sem JS Watch hefur sýnt og sannað með þessu úri, að það er hægt að ná árangri með vilja og dugnaði.