Samkomulag gert um leitar- og björgunarsvæði ríkja á
norðurslóðum
Miðvikudagur 22. desember 2010
Á fundi aðildarríkja Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Reykjavík 14.-16.
desember., var lokið gerð alþjóðasamnings um samstarf við leit og björgun á
hafi og í lofti á norðurslóðum. Ásgrímur L. Ásgrímur, yfirmaður stjórnstöðvar
Landhelgisgæslunnar var á meðal 50 sérfræðinga frá átta þjóðum sem sóttu fundinn, frá Bandaríkjunum, Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð, auk fulltrúa Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, en unnið hefur verið að gerð samningsins undanfarið ár.
Talið hefur verið brýnt að bregðast við aukinni fyrirsjáanlegri umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum sem þar af leiðir. Í hinum nýja samningi eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta bera ábyrgð á og kveðið á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir.
Samningurinn er sögulegur þar sem um að ræða fyrsta
alþjóðasamninginn milli hinna átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Er hér á
ferðinni mikilvægt fordæmi og vísir að frekari samningsgerð og nánu samstarfi
milli ríkjanna undir hatti ráðsins. Gerð samningsins fellur vel að stefnu
íslenskra stjórnvalda í norðurslóðamálum en þau hafa lagt mikla áherslu á að efla
Norðurskautsráðið sem meginsamstarfsvettvanginn fyrir málefni norðurslóða.
Samningurinn um leit og björgun á norðurslóðum verður
undirritaður á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk á Grænlandi í maí nk.