Óvenju há sjávarstaða dagana eftir fullt tungl í janúar, febrúar og mars 2011.

Landhelgisgæslan vekur athygli á óvenju hárri sjávarstöðu dagana eftir fullt tungl í janúar, febrúar og mars 2011.

Flóðspá fyrir Reykjavík gerir ráð fyrir óvenju hárri sjávarstöð á fullu tungli í janúar, febrúar og mars. Það er því ástæða til að fylgjast vel með veðurspá og loftþrýstingi þessa daga og jafnframt dagana fyrir og eftir fullt tungl.

Breytingar á veðri valda mismun á útreiknuðum og raunverulegum sjávarföllum því töflur yfir sjávarföll eru reiknuð út miðað við „venjuleg“ veðurskilyrði og meðalloftþyngd sem er við sjávarmál 1013 hPa (millibör).  Falli loftvog t.d. um 10 hPa má búast við hækkun sjávaryfirborðs um 0,1 m og öfugt. Blási af hafi og sé loftþrýstingur lágur, mun sjávarhæðin vera meiri en taflan sýnir, og á hinn bóginn minni með frálandsvindi og háum loftþrýstingi.

Ástæður óvenju hárrar sjávarstöðu núna er að tunglið verður eins nálægt jörðu og það getur orðið þann 19 mars. Þá verður það í um 357 þús kílómetrar fjarlægð frá jörðu. Tunglið er að meðaltali um 384.400 km frá jörðu en mest getur fjarlægðin verið um 407 þúsund km. Breytileg fjarlægð tungls frá jörðu hefur áhrif á sjávarhæð.

Einnig er vert að benda á að sjávarstaðan verður mjög lág þessa daga eins og sjá má á töflu. Það er því upplagt fyrir „fjörulalla“ að fara í fjöruskoðun ef veður er gott.

Nánari upplýsingar um flóð og fjöru þessa daga er að hafa hér.