Samstarf í almannaþágu - þjóðfundur um öryggis- og neyðarþjónustu í tilefni af 112-deginum

Fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Í dag koma um eitt hundrað starfsmenn og sjálfboðaliðar í öryggis- og neyðarþjónustu af öllu landinu saman til fundar í tilefni af 112-deginum sem að venju er haldinn 11. febrúar. Um 10 starfsmenn, víða úr starfsemi Landhelgisgæslunnar taka þátt í fundinum en markmið hans er að ræða framtíðarskipan öryggis- og neyðarþjónustu og hvernig þjónustan verði best sniðin að þörfum almennings. Fundurinn verður með þjóðfundarsniði til að tryggja virka þátttöku allra fundarmanna. Fundur af þessu tagi hefur aldrei áður verið haldinn í tengslum við þessa mikilvægu þjónustu.

Þátttakendur á fundinum koma hvaðanæva af landinu og úr öllum greinum öryggis- og neyðarþjónustu, háir sem lágir; lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, starfsfólk heilbrigðisþjónustu, barnaverndar, Landhelgisgæslunnar, 112 og starfsfólk og sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

112_Hugarfundur1
Fundurinn er var afar vel sóttur eins og sést á myndunum.

Meginniðurstöður verða kynntar við dagskrá sem haldin verður í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á morgun, á 112-daginn, föstudaginn 11. febrúar, kl. 14. Innanríkisráðherra og velferðarráðherra munu taka þátt í kynningu niðurstaðna fundarins. Á dagskránni verður auk þess útnefning skyndihjálparmanns Rauða krossins, veiting verðlauna fyrir þátttöku í Eldvarnagetrauninni 2010 og viðurkenning til handa neyðarverði 112 fyrir framúrskarandi frammistöðu í starfi á síðasta ári.

112_Huarfundur3
112_Huarfundur2