Æfing þyrlu LHG með björgunarsveitum á Ísafirði og í Hnífsdal
Mánudagur 14. febrúar 2011
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á laugardagskvöld þátt í sjóbjörgunaræfingu með félögum í Björgunarfélagi Ísafjarðar, Tindum í Hnífsdal og Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Fór TF-LÍF frá Reykjavík kl. 19:30 og lenti á Ísafirði um klukkustund síðar. Fóru kafarar Landhelgisgæslunnar þar frá borði og var þyrlan undirbúin fyrir æfinguna en kafarar fóru í bát frá Slysavararfélaginu Landsbjörgu.
Var farið að nýju í loftið kl. 21:00 til æfinga með Gunnari Friðrikssyni, björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði og léttbátum frá Ísafirði og Hnífsdal. Að æfingu lokinni var lent á Ísafirði og farið til fundar í húsi Björgunarfélags Ísafjarðar þar sem einnig var boðið upp á kvöldmat. Farið var yfir framkvæmd æfingarinnar og sagði þyrluáhöfn æfinguna hafa gengið vel þrátt fyrir mikla ókyrrð, élja- og sjógang. Margar fyrirspurnir bárust frá heimamönnum varðandi björgunarstörf með þyrlu.
Hundabjörgunarsveitin ásamt lækni og stýrimanni úr áhöfn TF-LÍF
Var því næst haldið um að nýju um borð í TF-LÍF og fengu tvær konur úr hundabjörgunarsveitinni að koma með hundana sína um borð eftir að búið var að setja í þyrluna í gang. Var það gert til að hundarnir öðlist traust á þyrlunni. Vegna mikillar ókyrrðar í djúpinu var þó ekki hægt að síga úr þyrlunni með hundana. Gekk flugið vel og voru allir ánægðir. Var æfingu á Ísafirði lokið kl. 00:30.