Þakkir forstjóra til starfsmanna LHG í tilefni af niðurstöðum nýlegra rannsókna

  • Gunnolfsvikurfjall-ad-vetri

Fimmtudagur 24. febrúar 2011

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fengu í dag sendar þakkir frá Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar  í tilefni af niðurstöðum nýlegra rannsókna sem höfðu það að markmiði að kanna traust almennings til stofanana hér á landi.

Sælir samstarfsfélagar!

Á síðustu dögum hafa birst í fjölmiðlum niðurstöður kannana um traust almennings til stofnana ríkisins sem framkvæmdar voru í febrúar.    Annars vegar birtust niðurstöður könnunar MMR - Markaðs- og miðlarannsókna á trausti almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála.  Hins vegar niðurstöður þjóðarpúls Gallup sem lagður er fyrir árlega og kannar traust almennings til stofnana á margvíslegum vettvangi.  Má þar nefna heilbrigðiskerfið, dómskerfið, bankakerfið, lögreglu, Háskóla Íslands, Alþingi, þjóðkirkju, fjármálaeftirlit, Borgarstjórn Reykjavíkur, umboðsmann Alþingis, embætti sérstaks saksóknara og fleira.

Niðurstöður þessara beggja kannana eru mjög afgerandi.  Landhelgisgæslan er sú stofnun hér á landi sem nýtur mest trausts þjóðarinnar. 

Samkvæmt könnun MMR nýtur Landhelgisgæslan áberandi mest trausts meðal stofnana á sviði réttarfars og dómsmála eða hjá tæplega 81% svarenda.  Niðurstöður þjóðarpúls Gallup eru enn frekar afgerandi ekki síst þar sem samanburðurinn er við fleiri stofnanir en þar segjast 89% svarenda treysta Landhelgisgæslunni.  Í báðum þessum könnunum er Landhelgisgæslan efst á lista og nýtur meira trausts samanborið við fyrri ár.  

Þjóðin ber góðan hug til Landhelgisgæslunnar og það eru verðmæti sem við skulum gæta vel að.  Í störfum okkar höfum við leitast við að sinna þeim verkefnum sem okkur er trúað fyrir af alúð, fagmennsku og metnaði.  Það endurspeglast í þessum niðurstöðum.

 Þessi árangur er ykkur kæru samstarfsmenn að þakka.  Við skulum þó átta okkur á því að allt er í heiminum hverfult og vegsemd sem þessari fylgir mikil ábyrgð, sér í lagi nú á þessum umbrotatímum þar sem saman fara samdráttur og breytingar í rekstri.  Nú standa fyrir dyrum viðamikil og erfið verkefni í útlöndum sem eru eins og þið vitið til að halda okkur á floti hér heima.  Við hljótum að vona að áframhald verði á verkefnum okkar á Keflavíkurflugvelli sem gefa möguleika á að stórefla getuna til að sinna með öruggari hætti þeim skyldum sem okkur ber að rækja.

Nú er mikilvægt að við beitum skynsemi með báðar fætur á jörðinni, gætum fyllstu varúðar og hófsemdar og látum þetta verða okkur enn frekari hvatning til fagmennsku og vandvirkni. 

Gunnolfsvikurfjall-ad-vetri

Ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli