Fjölgar í hópi kafara Landhelgisgæslunnar

  • JSWatchCrasy_vether_og_kofun_019

Sunnudagur 11. apríl 2011

Tveir kafarar bættust nýverið í hóp kafara Landhelgisgæslunnar sem hafa réttindi til að stunda leitar- og björgunarköfun. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar afhenti Jóhanni Eyfeld, varðstjóra og Andra M. Johnsen, háseta B-réttindaskírteini kafara sem útgefin eru af Siglingastofnun. Auk Jóhanns og Andra útskrifuðust þrettán starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Ríkislögreglustjóra af námskeiðinu sem stóð yfir í níu vikur.

KofunNamskeid_lok
Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengju- og köfunardeildar, Halldór B. Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, Jóhann Eyfeld varðstjóri og kafari, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Andri m. Johnsen, háseti og kafari og Jónas Þorvaldsson, fagstjóri köfunarsveitar.

Eru nú samtals tólf atvinnukafarar sem starfa hjá Landhelgisgæslunni. Kafarar Landhelgisgæslunnar sinna fjölbreyttum verkefnum og má þar nefna öryggisleit neðansjávar, veiðarfæri skorin úr skipum, viðgerðir neðansjávar auk ýmissa verkefna með Ríkislögreglustjóra og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Inntökuferli fyrir námskeiðið tók tvær vikur.  Þá var m.a. þrek umsækjenda og vatnsvani prófaður og þeir prófaðir í þrýstiklefa með þrýstingi sem samsvarar 50 metra dýpi í köfun.  Umsækjendur fóru jafnframt í læknisskoðanir og viðtöl. Námskeiðið sjálft tók sjö vikur og var kennt í tveimur hlutum, sá fyrri hófst í nóvember sl. og sá síðari var í febrúar.  Í millitíðinni stunduðu þátttakendur æfingakafanir.  Kennslan var bæði bókleg og verkleg og sáu leiðbeinendur LHG, SHS, RLS um kennsluna.

Sá starfsmaður Landhelgisgæslunnar sem hefur einna lengst sinnt köfun heitir Aðalsteinn Aðalsteinsson. Hann var í áhöfn á varðskipinu  Ver fyrir 35 árum, árið 1976 meðan á þorskastríðinu stóð. Eftir að varðskipið lenti í árekstri við breska freigátu skipti Aðalsteinn um vinnustað og hóf hann þá starfsferil sinn sem aðstoðarmaður kafara og síðan kafari  hjá Köfunarstöðinni h/f. Hefur hann alltaf viðhaldið réttindum sínum en nú er aðalstarf hans varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Hefur hann sinnt afar fjölbreyttum verkefnum á sviði köfunar fyrir opinbera jafnt sem einkaaðila, má þar nefna köfunarvinnu við byggingu á brúarstöplum, bryggjum, viðgerðir á sandrásum virkjana, eftirlit og viðhald á ca 3 km vetnisleiðslu sem lá frá Klettagörðum og að áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Einnig vann hann við að grafa niður rafmagnsstrengi, við bryggjusmíði,  viðhald og eftirlit á hafnarmannvirkjum og margt fleira.  Einnig hefur Aðalsteinn sinnt ýmsum verkefnum vegna skipa og báta; að ná upp bátum sem sukku; skera úr skrúfum; skipta um botnstykki; sjóða ný zink á skip og fleira.  Árið 1980 tóku gildi nýjar reglur varðandi réttindamál kafara en þá fengu þeir einstaklingar afhent atvinnuskírteini A sem uppfylltu skilyrði um að hafa stundað köfun í atvinnuskyni 4 ár eða lengur og gátu framvísað gögnum að þeir hafi náð  5 – 600 botntímum, sem og ákveðnum námskeiðum.  Tóku þá einnig gildi nýjar reglur um öflun réttinda í skóla og voru slíkir skólar eingöngu starfræktir erlendis.

Starfsumhverfi kafara hefur tekið ýmsum breytingum frá því að Aðalsteinn hóf störf, slíkt gerist bæði með aukinni þekkingu og tækjabúnaði. Ákveðnir þættir hafa nú nær lagst af en eins fylgir þróun tækjabúnaðar auknir möguleikar. Einnig eru dæmi um að vinna sem áður var unnin neðansjávar fer nú fram á yfirborðinu.